Vísitala íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu hækkaði einungis um 0,2% í júnímánuði - líkt og Viðskiptablaðið hefur áður gert skil. Talsvert dróg úr hækkunum miðað við fyrri mánuði, verð á sérbýli hækkaði um 1,6% en verð á fjölbýli lækkaði um 0,2%. Júnímánuður er oftast tiltölulega rólegur mánuður í fasteignaviðskiptum og kemur fram í Hagsjá Landsbankans að of snemmt sé að segja nokkuð um hvort markaðurinn sé að kólna eða ekki. Samkvæmt tölum Þjóðskrár hefur verð á fjölbýli hækkað um 21,4% á síðustu tólf mánuðum - verð á sérbýli um 20,4% og er heildarhækkunin 21,2%.

Hækkunin milli mánaða er þó sú minnsta síðan í ágúst 2015 og fjölbýli hefur ekki lækkað í verði síðan í júní 2015. Í greiningu bankans segir að ætla megi að framboð hafi ekki enn aukist nægilega til að hafa áhrif á verðþróun. „Tölur sýna reyndar að auglýstum fasteignum hefur fjölgað eilítið á allra síðustu mánuðum eftir að hafa verið í lágmarki nú í vor,“ segir þar.

Þróunin verður líklega svipuð

Að mati hagfræðideildar Landsbankans eru ýmis merki uppi um að breytingar kunni að vera í vændum, en að þeirra mati er ekki hægt að slá neinu föstu um hvort svo sé í raun og veru. Tekið er fram að bygging nýrra íbúða hafi ekki haldið í við þörf eftir húsnæði og að hafi það ástand viðhaldið spennu á markaðnum. „Sú staða batnar auðvitað smám saman,“ segir í greiningunni.

Þó er tekið fram að það tekur langan tíma að auka framboð húsnæðis og mun því spennuástand ríkja áfram á markaðnum. „Það tekur hins vegar langan tíma að auka framboð húsnæðis og því mun spennuástand á markaðnum vara eitthvað áfram,“ er tekið fram í Hagsjánni.

Einnig kemur fram í Hagsjánni að verðbólga hafi verið lág og stöðug síðustu misseri og því hefur raunverð fasteigna hækkað mun meira en ella. „Að undanskildum húsnæðiskostnaði hefur ríkt verðhjöðnun í hagkerfinu frá því um mitt ár 2016.“ Tekið er fram að vísitala neysluverðs án húsnæðis í júnímánuði var þannig um 3,1% lægri en í júní 2016 sem þýðir að allar nafnverðshækkanir á húsnæði síðasta árið koma nú fram sem raunverðshækkun sem nemur þeirri tölu. Raunverð fasteigna hefur því hækkað um 25% á einu ári frá júní 2016 til júní 2017.