Á Norðurlandi eru starfræktir tveir háskólar, Háskólinn á Hólum og Háskólinn á Akureyri. Háskólarnir bjóða báðir upp á fjölbreytt námsframboð og koma nemendur sem þangað sækja nám úr öllum landshlutum.

Háskólinn á Akureyri var stofnaður árið 1987 og fyrst um sinn bauð hann einungis upp á nám í hjúkrun og rekstri en námsgreinum við skólann hefur fjölgað mikið í áranna rás og býður skólinn nú upp á nám í tæplega 30 námsgráðum. Tæplega 2.500 nemendur stunda nú nám við skólann og er boðið upp á bæði fjarnám og staðnám í hinum ýmsu fræðigreinum. „Vinsælustu greinarnar hjá okkur, ef við tökum mið af umsóknarfjölda eru hjúkrunarfræði, lögreglufræði, sálfræði og viðskiptafræði,“ segir Eyjólfur Guðmundsson, rektor Háskólans á Akureyri. „Í þessum greinum eru samkeppnispróf og því komast færri að heldur en vilja. Það er líka mikil aðsókn í aðrar deildir skólans og til marks um það er bara sá gífurlegi fjöldi umsókna sem við þurfum að hafna á ári hverju ári. Við munum til að mynda líklega þurfa að hafna um það bil 650 umsóknum í ár,“ bætir hann við.

Saga háskólastarfs á Hólum í Hjaltadal nær langt aftur til ársins 1006 þegar biskupssetri var komið á laggirnar. Háskólinn á Hólum hóf kennslu á háskólastigi fyrir tæpum þremur áratugum síðan en þar á undan var starfandi bændaskóli. Háskólinn á Hólum fékk viðurkenningu menntamálaráðherra á fræðasviðum sínum árið 2008. Skólinn býður nú upp á nám í fiskeldis- og fiskalíffræði, reiðmennsku og reiðkennslu og ferðamálum. „Hingað á Háskólann á Hólum sækja nemendur bæði frá öllum landshlutum og öllum heimshornum,“ segir Erla Björk Örnólfsdóttir, rektor Háskólans á Hólum. Hún bætir við að um 30-40% þeirra nemenda sem stunda nám í reiðmennsku og reiðkennslu séu að erlendu bergi brotnir. „Erlendu nemendurnir okkar leggja sérstaklega mikið á sig því það eru inntökupróf inn í þessa ákveðnu deild og erlendu nemarnir leggja á sig að læra íslensku áður en þau þreyta inntökupróf við skólann,“ bætir hún við.

Að sögn Erlu eru flestir nemendur Háskólans í Ferðamáladeildinni en í henni er meðal annars kennd viðburðastjórnun auk ýmissa fleiri hagnýtra faga sem tengjast ferðaþjónustunni.

Nýsköpun í blóma

Eyjólfur segir að Háskólinn á Akureyri hafi oft tekið þátt í nýsköpunarhelgi en helgin er eins konar vettvangur fyrir ný fyrirtæki til að kynna starfsemi sína. „Það gleymist oft að nýsköpun er afar mikilvægur þáttur af starfsemi opinberra stofnanna bæði til þess að bæta þjónustu og draga úr kostnaði. Þess vegna erum við í Háskólanum á Akureyri afar stolt af okkar framlagi til nýsköpunarmála.“

Erla Björk segir að nemendur við Háskólann á Hólum vinni oft á tíðum verkefni sín í nánu samstarfi við fjölbreytt fyrirtæki og nýti síðan þá þekkingu til að koma sínum eigin hugmyndum á fót. Hún nefnir dæmi um að margir fyrrum nemendur skólans reki nú sín eigin fyrirtæki og hafi þeim því tekist að hagnýta þá þekkingu sem þeir öðluðust í Háskólanum á Hólum. „Það má í raun segja að margir þeir nemendur sem koma til okkar séu með góðar hugmyndir á sviði nýsköpunar en vanti í raun þau tæki og tól sem til þarf til þess að raungera hugmyndina. Þá þekkingu og reynslu geta þau fengið hjá okkur,“ segir Erla.

Mikilvægur kjarni

Rektorarnir eru sammála um það að það sé afar mikilvægt að það séu háskólar starfræktir utan höfuðborgarsvæðisins og að báðir skólarnir séu mikilvægur partur af atvinnulífinu á Norðurlandi.

„Sérstaða Háskólans á Hólum er að allar þær greinar sem eru kenndar við skólann eru í mikilli sókn hérlendis sem og á heimsvísu, til dæmis fiskeldi, ferðaþjónusta. Auk þess má nefna að við erum eini skólinn sem býður upp á nám í viðburðastjórnun í grunnnámi,“ segir Erla Björk.

Eyjólfur segir að mikilvægt sé að halda því til haga hvað Háskólinn á Akureyri hafi gert mikið fyrir atvinnulífið á Norðurlandi.

„Þrjátíu ára saga Háskólans á Akureyri sýnir hvað stofnun hans var mikið gæfuspor. Háskólinn hefur myndað sterkan kjarna á Norðurlandi og orðinn órjúfanlegur hluti af norðlensku samfélagi.“

Nánar er fjallað um málið í sérblaðinu Atvinnulíf á Norðurlandi sem fylgdi Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .