Í spjalli við bæjarstjórana í öllum fjórum sveitarfélögunum á Reykjanesi kemur fram hve mikil uppbyggingaráform eru þar á næstu árum, enda bjóða þau öll upp á nægt framboð lóða. Eins og kom fram þegar rætt var við Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóra í Reykjanesbæ þróar bæjarfélagið nú allt að 20 þúsund manna viðbótarbyggð, en svipuð þróun er í Suðurnesjabæ, Grindavík og Vogum.

  • Suðurnesjabær - Nýtt sveitarfélag saumað saman

Magnús Stefánsson bæjarstjóri í Suðurnesjabæ , sem varð til við sameiningu Garðs, þar sem hann var áður bæjarstjóri, og Sandgerðis, í sumarbyrjun í fyrra, segir fólksfjölgun hafa verið í báðum bæjunum, sérstaklega síðustu tvö árin.

„Það hefur verið töluverð hreyfing í því, og er verið að byggja núna íbúðarhúsnæði í báðum íbúðarkjörnunum, bæði í nýjum hverfum og svo voru lausar lóðir inni í íbúðabyggðinni sem hefur verið úthlutað síðustu ár svo það má segja að þar sé þétting byggðar,“ segir Magnús sem segir þetta mest raðhús með minni íbúðum, parhús og einbýlishús.

„Í Garðinum vorum við með nýtt hverfi sem var komið af stað með fyrir hrun, en stoppaði eiginlega þá. Síðan fórum við í deiliskipulagsbreytingu á því svæði fyrir rúmu ári og erum við búin að úthluta þar nokkrum lóðum og er byrjað að byggja þar. Siðan má alveg segja að byggðin sé komin í þrjá kjarna, því það gleymist oft að flugstöðin og sú uppbygging sem hefur verið í kringum hana, er í Suðurnesjabæ.“

Magnús segir að á milli kjarnanna þriggja séu um 5 kílómetrar sem sé gott byggingarland sem sameiginlegt bæjarfélag sé nú byrjað að vinna nýtt aðalskipulag fyrir.

„Við höfum undanfarið verið að vinna hörðum höndum að því að sauma bæina saman í eitt sveitarfélag og eru miklar áskoranir í því að búa til nýtt aðalskipulag fyrir þetta nýja stóra sveitarfélag, enda eru menn þar að leggja línur til langrar framtíðar,“ segir Magnús sem segir alveg koma til greina að stefnt verði að því að byggðarlögin nái saman í eina samfellda byggð.

„Það á alveg eftir að taka þessa umræðu alla, en við erum að byrja þetta ferli allt til að sjá hvernig menn sjá fyrir sér að byggðarlögin þróist til framtíðar. Í síðustu viku auglýstum við eftir hugmyndum frá íbúum og öðrum, sem síðan verður unnið úr, en við ætlum að fara svolítið aðra leið í þessu heldur en menn hafa gert almennt. Ætlum við að gefa arkitektastofum og öðrum aðilum sem eru í svona vinnu, kost á að koma með sínar hugmyndir og svo verður valið úr hópi þeirra og unnið út frá þeim.“

  • Vogar - Áform um þreföldun núverandi íbúða

Ásgeir Eiríksson bæjarstjóri í Vogum á Vatnsleysuströnd segir áætlanir geta þrefaldað íbúafjölda í sveitarfélaginu. „Það hefur fjölgað hér alveg þangað til á síðasta ári, þegar fjöldinn stóð í stað í tæplega 1.300 íbúum, sem ég rek til þess að það er ekkert húsnæði að hafa hérna lengur,“ segir Ásgeir.

„Við fórum í kjölfarið í umfangsmikla gatnagerð og höfum við úthlutað á því svæði lóðum fyrir um 170 íbúðir, sem koma til viðbótar við um 400 íbúðir sem eru í bænum. Flestar íbúðir sem eru hérna fyrir eru einbýlishús, en uppistaðan á nýja svæðinu, eru fjölbýlishús, en þar verða líka einbýlishús og raðhús. Þegar flutt verður inn í þessar íbúðir í sumar og haust, fer að fjölga á ný í bænum.“

Ásgeir segir heilmikið land í skipulagi Voga fyrir framtíðaríbúðasvæði. „Stóra verkefnið framundan hér er að við bæinn er stórt land í einkaeigu þar sem félagið Grænabyggð áformar að byggja tæplega 800 íbúðir á næstu 10 árum. Verða þarna alls konar íbúðir, bæði í fjölbýlishúsum sem og parhús og einbýlishús og jafnvel einhver raðhús líka. Þetta verkefni hófst árið 2005, en fyrri eigandi fór síðan á hausinn í hruninu,“ segir Ásgeir sem bendir á að sveitarfélagið sé miðja vegu á milli atvinnusvæða úti á nesi sem og í nágrenni Reykjavíkur.

„Þú ert svona korter héðan inn í Hafnarfjörð og svona hálftíma í Kringluna. Síðan eru einhver 200 störf hérna í bænum sjálfum, en meginfókusinn í atvinnulífinu hér er í matvælaframleiðslu. Hér eru til að mynda tvær fiskvinnslur, það er höfn hérna þar sem nú er kominn farþegabátur sem gerir út á ferðaþjónustuna, en þó er engin löndun, heldur fá fiskvinnslurnar aflanum ekið til sín. Síðan eru tvö fiskeldisfyrirtæki, Íslandsbleikja og Stofnfiskur og svo erum við með gasverksmiðju Íssaga hérna enda uppistaðan í þeirra viðskiptavinum einmitt fiskeldisfyrirtækin. Svo er eitt af stærstu eggjabúum landsins hér, Nesbú inn á Vatnsleysuströnd, auk svínabús.“

Spurður hvort það sé ekkert örðugt um vik að fá vatn í sveit sem kennd er við Vatnsleysu segir hann það alls ekki svo. „Það er mikill misskilningur að hérna sé einhver vatnsskortur, svo er nú heldur betur ekki, svo það eru alls konar kenningar fyrir nafninu en ein er sú að það leysi mikið vatn hér undan hrauninu.“

  • Grindavík - Lágir skattar í fjárhagslega sterkri byggð

Fannar Jónasson bæjarstjóri í Grindavík segir íbúafjölgun bæjarins síðustu fjögur árin hafa verið gríðarlega mikla. „Hún hefur þó verið jöfn og stígandi, en í ársbyrjun 2015 náðum við 3.000 manns, en núna erum við svona rétt að ná 3.500 manns, það gæti gerst í þessum mánuði eða þeim næsta, sem er svolítið skemmtilegt,“ segir Fannar.

„Atvinnuleysi hérna er það minnsta bæði á Suðurnesjum og þótt víðar væri leitað, og okkur vantar í raun fleiri vinnandi hendur. Það hefur því verið það mikil eftirspurn eftir lóðum hér að það kláraðist eiginlega lagerinn sem við ætluðum að nýta næstu árin árið 2017, þannig að núna höfum við farið í frekari gatnaframkvæmdir og úthlutanir og enn er mikið byggt.“

Fannar segir vöxtinn meðal annars að þakka góðri þjónustu í bænum á þeim sviðum sem séu eftirsóknarverð fyrir fjölskyldufólk. „Það er mikil náttúrufegurð hér og Grindavíkurbær er bara virkilega gott bæjarfélag að búa í, auk þess sem það er auðvitað stutt að sækja til Reykjavíkur, ef menn telja sig þurfa, enda má segja þetta sé allt orðið eitt atvinnusvæði,“ segir Fannar sem segir bæinn skara fram úr á svæðinu.

„Grindavík er eitt best setta sveitarfélag á landinu fjárhagslega, við erum með lægsta útsvar á svæðinu sem og fasteignagjöld, á sama tíma og fjárfestingargeta bæjarins er ein sú mesta sem gerist. Nú erum við að byggja nýtt glæsilegt íþróttahús sem verður tekið í notkun seinna á árinu og við erum að undirbúa stækkun á bæði grunnskóla og leikskóla.“

Sem dæmi um fleira sem bærinn hefur getað sett pening í síðustu ár nefnir Fannar verulegar endurbætur á höfninni. „Núna er hún einhver sú besta á landinu, enda er aflahlutdeild Grindavíkurhafnar sú önnur mesta á eftir Reykjavík, og á undan Vestmannaeyjum sem eru í þriðja sæti. Við erum með gríðarlega sterka útgerð hérna og fiskvinnslu líka, og síðan höfum við viðrað þá hugmynd við skipafélögin að þau gætu komið og landað hjá okkur sem og að minni skemmtiferðaskip gætu komið við,“ segir Fannar.

„Ferðaþjónustan hefur svo auðvitað vaxið og dafnað í bænum enda er Bláa lónið, flaggskip íslenskrar ferðaþjónstu, innan bæjarmarkanna en sem dæmi tóku þeir núna fyrir áramótin í notkun heila 24 íbúða blokk fyrir starfsmenn sína. Síðustu vikurnar höfum við svo verið að ganga frá nýju aðalskipulagi og síðan deiliskipulagi þannig að við getum fjölgað götum hér og þá lóðum þónokkuð mikið á næstu árum.“

Nánar er fjallað um málið í sérblaðinu Reykjanes, sem fylgdi Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð og hægt er gerast áskrifandi hér .