Það hefur orðið tvöföldun á fjölda þeirra nemenda sem skráðir eru í meistaranám í viðskiptafræði við Háskólann í Reykjavík. Fjölgunin hefur orðið í kjölfar breytinga í þriggja anna fyrirkomulag með sumarönn, nýjum námsbrautum og erlendum kennurum.

„Við réðumst í þær breytingar fyrir einu og hálfu ári síðan að endurrýna námið hjá okkur. Við fengum aðila úr atvinnulífinu meðal annars Viðskiptaráð til að fara yfir þetta með okkur. Síðan fórum við í heimsóknir í erlenda háskóla og höfðum þeirra reynslu til hliðsjónar við endurskipulagninguna," segir Páll M. Ríkharðsson, forstöðumaður viðskiptafræðideildar HR.

Hann bætir við að ekki sé um eiginlega styttingu á námi að ræða heldur samþjöppun og að með þessu nýja fyrirkomulagi sé háskólinn í raun að hverfa frá skandinavíska módelinu og farinn að horfa í meiri mæli til Bretlands og Írlands.

„Álagið er það sama og áður, þetta er enn 90 eininga nám og hægt er að klára það á einu ári. Um 60% af okkar nemendum vinna samhliða námi þannig að fyrirkomulagið hentar þeim afar vel. Við höfum ásamt þessari samþjöppun á náminu hjá okkur sett á laggirnar tvær nýjar námsbrautir. Önnur einblínir á stjórnun í ferðaþjónustu og er hún kennd í samstarfi við erlendan háskóla sem er afar reyndur á því sviði. Hin námsbrautin er nýsköpunarbraut en að sögn Páls eru þessar nýju námsleiðir afar vinsælar."

Aðspurður hvort hann búist við enn meiri fjölgun á næsta ári segist hann eiga von á því. „Fólk hefur beðið eftir því að geta klárað nám sitt á skemmri tíma en hingað til hefur verið í boði. Þannig auðvitað eigum við von á frekari fjölgun," segir hann.