Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, segir að um þessar mundir sé kjörið tækifæri til að ráðast í uppbyggingu innviða. „Við erum um þessar mundir að fara út í framkvæmdir upp á tugi milljarða og af stærðargráðu sem við höfum aldrei áður séð í samgöngumálum. Við erum annars vegar að ræða um verkefni sem við erum að flýta og er í samgönguáætlun, en umræða um hana kláraðist nýverið, og hins vegar erum við að fara í fjárfestingarátak í framkvæmdum á þessu ári. Hluti af þessu átaki er að aðskilja akstursstefnur á meginakstursstefnum út úr Reykjavík og fækka einbreiðum brúm. Síðan erum við að fara út í sérstakt fjárfestingarátak upp á 6,5 milljarða á þessu ári og erum því að auka framkvæmdir um 20%,“ segir Sigurður Ingi og bætir við að um þessar mundir sé kjörið tækifæri til að ráðast í þessar framkvæmdir. „Við þurfum að hækka atvinnustigið í landinu í ljósi niðursveiflunnar sem kom í kjölfar COVID-19 heimsfaraldursins. Nú eru  vextir á lánum lágir og því er upplagt að ráðast í þessar framkvæmdir núna.“

Fólk hafi val

Sigurður Ingi segir að útfærslan á veggjöldum verði með þeim hætti að fólk hafi val og að það verði ódýrara að fara nýju leiðina og borga veggjaldið heldur en að fara gömlu vegina. „Varðandi veggjöldin þá verður útfærslan með svipuðum hætti og gjaldtakan í Hvalfjarðargöngum. Það verða sömu forsendur lagðar til grundvallar. Þú getur til að mynda valið að keyra nýju Ölfusárbrúna og greitt gjald eða þú getur valið að fara í umferðarteppuna og keyrt í gegnum Selfoss. En það verður þannig að það verður ódýrara að fara nýju leiðina heldur en gömlu leiðina. Því það er auðvitað gífurlegur kostnaður sem er fólginn í því að keyra lengri vegalengd. Ef við tökum sem dæmi að þú sért að fara upp á Hérað og þú ferð nýju leiðina og keyrir Öxi ertu að stytta leiðina um 60-70 kílómetra og sparar þér heila klukkustund í akstri,“ segir Sigurður Ingi og bætir við að ávinningurinn í notendagjaldinu fari til notandans en einnig framkvæmdaraðilans og lánveitandans.

Spurður hvort það standi til að veita sveitarfélögunum ívilnanir til að fá þau með í uppbyggingu innviða segir Sigurður Ingi að það standi ekki til að gera það af hálfu ríkisins með beinum hætti. „Það sem við höfum hins vegar gert er að við höfum verið að tryggja umfang Lánasjóðs sveitarfélaganna í útlánagetu og jafnvel þannig að hann geti þrefaldað útlánagetu sína til þess einmitt að sveitarfélögin geti farið í hagkvæma uppbyggingu.“

Uppbygging við flugvelli

Sigurður Ingi bætir við að uppbygging á vegum sé ekki eina verkefni ríkisstjórnarinnar og nefnir í því samhengi að fyrir liggi uppbyggingar við flugvelli landsins og það verkefni að koma 5G á laggirnar. „Ef við tökum flugið þá verður farið í uppbyggingu á nýrri flugstöð við Reykjavíkurflugvöll og á sama tíma erum við að stækka flugstöðina á Akureyri og endurbæta hana. Við munum einnig stækka flughlaðið á Akureyri og erum því að ýta undir möguleika Akureyrarflugvallar til að verða öflugri í millilandaflugi. Við erum líka að byggja upp varaflugvöllinn á Egilsstöðum til þess að auka varaflugvallargetu hans,“ segir Sigurður og bætir við að það sé á stefnuskránni að ráðast í fjárfestingarátak í Neskaupstað, á Þórshöfn, Blönduós og Ísafirði.

„Við settum auk þess 4 milljarða í Isavia vegna COVID-19 ástandsins og það gerir það að verkum að Isavia  geti ráðist í aðgerðir upp á 7 milljarða á þessu og næsta ári. Allt er þetta gert til að auka atvinnustigið og nýta tækifærin til fjárfestinga.“ Hann bætir við að það standi auk þess til að ráðast í uppbyggingu á höfnum landsins.

Sigurður Ingi segir jafnframt að það verkefni að koma á 5G nettengingu um allt land sé gríðarleg fjárfesting. „Sú fjárfesting mun hins vegar koma af hálfu fjarskiptafyrirtækjanna. En forsendan fyrir 5G uppbyggingu er ljósleiðaravæðingin og vegna þessa þá settum við 400 milljónir til viðbótar í Ísland ljóstengt-verkefnið. Við stefnum á að byggja upp 5G um allt land.“ Hann bætir við að síðan samdrátturinn í efnahagslífinu hófst í kjölfar COVID-19 hafi það verið markmið ríkisstjórnarinnar að stórauka fjárfestingar í innviðum með það að augnamiði að hækka atvinnustigið í landinu, minnka atvinnuleysi og nýta þetta tækifæri sem hefur skapast í fjárfestingar.

Nánar er fjallað um málið Framkvæmdablaðinu, sem fylgir Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .