Ægir Thorberg Jónsson, einn af eigendum og framkvæmdastjóri Aero Design Global, segir að fyrirtækið annist alls konar breytingar og flugvélaverkfræðiþjónustu, sér í lagi þegar flugvélaeigendur vilja láta vélar til nýs flugrekanda.

Aero Design Global er samstarfsverkefni á milli Aero Global Consulting og EFLU sem er ein stærsta verkfræðistofa landsins. „EFLA keypti hlut í félaginu, þannig að við erum með mjög gott bakland. Þeim finnst mjög spennandi að taka þátt í þessu og bæta við þekkingu sína og reynslu,“ segir Ægir.

Guðmundur Loftur Ólason er einnig hluthafi í ADG. Þeir Ægir og Guðmundur hafa mikla reynslu í fluggeiranum, og tóku t.d. þátt í að byggja upp tæknideild Wow air, en þeir hættu í lok árs 2016 til að byggja upp ADG sem hefur nú yfir að ráða átta starfsmönnum, í verkefnum í Tyrklandi, Bretlandi, Kanada, á Írlandi og Íslandi.

Tók þátt í gangsetningu Wow air

Hugmyndin að ADG kviknaði árið 2012 og þá fór fyrirtækið í grunnvinnu með EFLU að sögn Ægis, en framkvæmdin tafðist nokkuð vegna þess að Ægir fékk tækifæri til að vinna að öðru verkefni. „Það atvikaðist svo að árið 2013 hafði Skúli Mogensen samband við mig og bað mig um að setja upp tæknideild Wow air.

Það endaði svo með því að ég tók að mér stöðu tæknistjóra Wow air og setti upp allt viðhaldskerfi, verkfræði-, skipulags- og innkaupadeildina og flugvirkjadeildina þar. Svo hætti ég þar í lok árs 2016 og við ákváðum að fara í þetta samstarf aftur með EFLU,“ segir Ægir.

Bæði heima og erlendis

Ægir segir þörfina fyrir svona sérhæfða þjónustu mikla og þá sér í lagi í ljósi gífurlegs aukins ferðamannastraums til Íslands og aukinnar fjárfestingar í nýjum flugvélaflota. Hann vísar meðal annars til talna Boeing og Airbus, sem benda til þess að flugflotinn í heiminum muni tvöfaldast á næstu misserum.

„Við verðum bæði að þjóna fyrirtækjum hérna heima og erlendis, en þó meira erlendis. Það eru fjárfestingabankar sem eiga flugvélarnar og leigja þær til flugrekenda. Við bjóðum aðallega upp á svokallaða „one shot visits“ þar sem við getum komið og tekið vélar frá einum flugrekanda og förum yfir öll gögn og gerum vélina klára fyrir næsta flugrekanda sem ætlar að taka við vélunum og nota þær. Einnig bjóðum við upp á að breyta vélunum fyrir nýja flugrekendur,“ tekur Ægir fram.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .