Á dögunum gaf Hagfræðistofnun út skýrslu sem fjallaði um lyfjamarkaðinn hér á landi líkt og Viðskiptablaðið hefur greint frá. Í skýrslunni kom meðal annars fram að miklar aðgangshindranir séu inn í lyfjageirann og því sé erfitt fyrir nýja aðila að koma inn á markaðinn.

„Það eru að sjálfsögðu fagaðilar í heilbrigðisgeiranum sem þyrftu að meta hvort þessar aðgangshindranir séu of miklar eða nauðsynlegar,“ segir Ágúst. Hann bætir við að það fylgi mikill kostnaður skráningu lyfja hér á landi sem þyrfti mögulega að taka til skoðunar.

Ólafur Adolfsson, lyfsali hjá Apóteki Vesturlands, tekur undir að kostnaður við skráningu lyfja sé mikill. „Það er mikill kostnaður við skráningu lyfja hér á landi. Það þarf til að mynda að þýða alla fylgiseðla með lyfjum yfir á íslensku. Síðan þarf fylgiseðill að vera í hverri seldri pakkningu sem er að mínu mati óþarfi því þessar upplýsingar er hægt að nálgast á netinu.“

Spurður hvort hann telji kvaðir um birgðahald vera of strangar segir hann svo ekki vera. „Það er klausa í lögunum sem segir að sé lyf ekki til hjá lyfsala beri honum að útvega það eins fljótt og auðið er. Þannig að ég tel að þessar kvaðir séu ekki óþarflega strangar. Hins vegar flækja álagningarreglur lyfja og fyrirkomulag útgáfu lyfjaverðskrár birgðahald í lyfjabúðum með því að búa ýmist til hvata til að hamstra lyf eða framkalla lyfjaskort í lyfjabúðum.”

Fyrirhugaðar eru breytingar á lyfjalögum og  fram kemur í ársskýrslu heilbrigðisráðherra fyrir árið 2018 að undirbúningi að sameiginlegu útboði Danmerkur, Noregs og Íslands vegna kaupa á völdum lyfjum til notkunar á sjúkrahúsi sé lokið. Þá stendur einnig til að vinna að innleiðingu rafrænna fylgiseðla.

Tvö fyrirtæki ráðandi á lyfjamarkaði

Lyfja og Lyf og heilsa ráði saman lyfjamarkaðnum á höfuðborgarsvæðinu en fyrirtækin tvö hafa um 60-65% markaðshlutdeild á landinu öllu. Að mati skýrsluhöfunda liggur forskot fyrirtækjanna tveggja að stórum hluta í hagkvæmni í rekstri. Giskað hefur verið á að Costco apótekið sem kom inn á markaðinn í maí 2017 sé með 10% markaðshlutdeild.

Afkoma smásalanna á lyfjamarkaði hefur verið misgóð. Á árunum 2014 til 2017 var hagnaður tveggja stærstu keðjanna tæp 4% af rekstrartekjum, en hagnaður annarra lyfsala var aðeins rúmlega 1% af tekjum.