Í dag undirrita Japan og Evrópusambandið fríverslunarsamning , þá hittir Shinzo Abe forsvarsmenn Evrópusambandsins seinna í dag í lok fundar G20 ríkjanna sem haldinn verður í Þýskalandi. „Þetta er mjög stórt mál,“ segir Bolli Thoroddsen, formaður íslenska Viðskiptaráðsins í Japan.

„Í stuttu máli höfum við í Viðskiptaráðinu í Japan um all langt skeið  talað fyrir fríverslunarsamningi á milli Íslands og Japans. Við höfum unnið að því á Íslandi, að fá íslenska þingmenn með í þann leiðangur. Fyrir um það bil tveimur árum náðist síðan um það þverpólitísk samstaða, en síðan þarf að fá Japana  með að sjálfsögðu. Við fengum þau skilaboð að Japanir vildu leggja áherslu á viðræðurnar við Evrópusambandið. En það var að klárast núna í dag,“ segir hann. Viðræðurnar á milli Evrópusambandsins og Japans tóku um það bil fjögur ár.

Mögulegt samstarf með EFTA-ríkjum?

Samningurinn er bæði hefðbundinn fríverslunarsamningur, og það sem er kallað nokkurs konar „efnahagslegt samstarf“ (e. economic partnership) sem tekur á öðrum málum líka á borð við loftlagsmál, fjárfestingar og tekur á ákveðnum áherslum á borð við það að halda uppi hróðri opinna hagkerfa og svo framvegis.

„Ein hugmynd sem hefur komið upp og við höfum talað fyrir er að þegar Evrópusambandið væri búið að ljúka viðræðum við Japan  að þá gæti verið komið að Íslandi,  eða jafnvel að Íslandi og EFTA-ríkjunum: Íslandi, Noregi, Liechtenstein, og Sviss. Við erum því að vonast til þess að það náist samstaða á milli EFTA-ríkjanna að óska eftir fríverslunarviðræðum við Japan,“ segir Bolli.

Japan er stærsti útflutningsmarkaður Íslands í Asíu. Þann 1. mars síðastliðinn sendu íslensk stjórnvöld sterk skilaboð til japanskra stjórnvalda með þverpólitísku samþykki tillögu á Alþingi þess efnis að fela ríkisstjórninni að hefja undirbúning fríverslunarsamnings við Japan - eins og áður hefur verið fjallað um á síðu Viðskiptablaðsins.