Hlutabréfamarkaðir víða um heim opnuðu rauðir í dag eftir verstu viku hlutabréfa í meira en ár, samkvæmt Financial Times . Átján af tuttugu félögum aðalmarkaðar íslensku Kauphallarinnar hafa lækkað í viðskiptum dagsins og úrvalsvísitalan hefur fallið um nærri eitt prósent þegar fréttin er skrifuð.

Hlutabréf tæknifyrirtækja, sem hafa mörg rokið upp í faraldrinum, leiddu lækkanir í dag. Fjárfestar draga reiða sig nú minna á þessi vaxtarfyrirtæki þegar útlit er fyrir að seðlabankar heims dragi úr stuðningsaðgerðum og ráðist í vaxtahækkanir til að bregðast við rísandi verðbólgu. Goldman Sachs sagðist um helgina gera ráð fyrir að Seðlabanki Bandaríkjanna muni hefja vaxtahækkunarferli í mars.

Sjá einnig: Upp fyrir núllið í fyrsta sinn í þrjú ár

Hærra vaxtarstig leiðir bæði til hærri fjármögnunarkostnaðar fyrir öll fyrirtæki en einnig lækkar verðmat fyrirtækja í virðislíkunum fjárfesta þar sem núvirði hagnaðar í framtíðinni verður minna. Áhrifin eru meiri hjá fyrirtækjum sem eru enn í vaxtarfasa og áætla að skila mun hærri hagnaði í framtíðinni.

Stoxx Europe 600 vísitalan hefur fallið um 2,2% í dag og ekki verið lægri í mánuð. Þá hefur undirvísitala hennar sem nær til tæknifyrirtækja lækkað um 3,8% í dag og alls um 11% í janúar. Svipaða sögu er að segja um vísitölur hlutabréfa tæknifyrirtækja í Asíu.

Vísitala bandarískra tæknifyrirtækja sem eru rekin með tapi hefur lækkað um fimmtung í ár. Markaðsvirði markaðarins fyrir vaxtarsprota í Tokyo kauphöllinni hefur fallið um 18% í ár.