Eftir talsverða hækkun á gengi rafmyntarinnar Bitcoin á undanförnum mánuðum hefur þróunin snúist við og hefur gengið lækkað um meira en 2.000 dollara á ríflega sólarhring. Þegar þetta er skrifað stendur gengi Bitcoin í rúmlega sautján þúsund dollurum en fyrir tveimur dögum náði gengið hæstu hæðum í ríflega 19.200 dollurum.

Gengi annarra rafmynta hefur sömuleiðis lækkað talsvert á undanförnum sólarhring. Gengi Ethereum hefur lækkað um 14%. Á sama tíma hefur gengi rafmyntanna XRP, Chainlink sem og Litecoin lækkað um fimmtung eða meira en vert er að taka fram að gengi XRP hefur hækkað um þrjá fjórðu á síðustu viku.

Bitcoin er samt sem áður með yfirburðum verðmætasta rafmynt heimsins. Markaðsvirði Bitcoin er ríflega 314 milljarðar dollara til samanburðar við Ethereum, sem er næst verðmætasta rafmynt heims, með markaðsvirði upp á tæplega 60 milljarða dollara.

Af tíu verðmætustu rafmyntum heims hefur gengi fimm þeirra hækkað á undanfarinni viku, gengi tveggja um fimmtung eða meira. Að sama skapi hefur gengi fimm þeirra lækkað, gengi tveggja um tíu prósent eða meira.