Rekstrarárið 2018 var það besta í sögu VÍS. Reksturinn hjá Verði gekk einnig vel en ekki er sömu sögu að segja af Sjóvá og TM. Á fyrstu níu mánuðum ársins 2019 hefur orðið mikill og jákvæður viðsnúningur í rekstri Sjóvár og TM. Það sem af er ári er samsett hlutfall allra félaganna undir 100%.

Rekstur stóru tryggingafélaganna gekk misjafnlega í fyrra. Samanlagður hagnaður Vátryggingafélags Íslands (VÍS), Sjóvár, Tryggingamiðstöðvarinnar (TM) og Varðar nam tæplega 4,7 milljörðum króna samanborið við tæplega 7,2 milljarða hagnað árið 2017. Velta félaganna fjögurra nam samanlagt 72 milljörðum árið 2018 en 68,6 milljörðum árið á undan. Vörður er eina félagið af þessum þremur sem ekki er skráð á markað. Vörður er í eigu Arion banka, sem er skráður á markað.

Gott ár hjá VÍS
Árið í fyrra var besta rekstrarárið í sögu VÍS. Félagið hagnaðist um tæplega 2,1 milljarð króna, sem var aukning um 735 milljónir á milli ára. Heildartekjur VÍS jukust um tæplega 17% á milli áranna 2017 og 2018. Munaði þar mestu um að fjárfestingatekjur jukust um tæplega 1.480 milljónir króna á milli ára. Árið 2017 námu þær 1.350 milljónum króna en í fyrra námu þær tæplega 2.830 milljónum. „Fjárfestingastarfsemin gekk vel í erfiðu árferði,“ er haft eftir Helga Bjarnasyni, forstjóra VÍS, í tilkynningu með ársuppgjörinu 2018.

Fín afkoma hjá Verði
Líkt og VÍS skilaði Vörður betri afkomu árið 2018 en 2017. Fór hagnaðurinn úr 960 milljónum króna í tæplega 1.250 milljónir. Heildartekjur Varðar námu rúmlega 11.4 milljörðum króna árið 2018 samanborið við 10,6 milljarða árið 2017. Fjáreignatekjur, sem eru m.a. vaxtatekjur og gangvirðisbreytingar fjárfestinga, drógust saman á milli ára. Í fyrra námu fjáreignatekjurnar 900 milljónum króna samanborið við 1.256 milljónir árið 2017.

Léleg afkoma af fjárfestingum Sjóvár
Rekstur Sjóvár og TM var hins vegar þyngri á síðasta ári en hjá VÍS og Verði. Sjóvá hagnaðist um 652 milljónir króna í fyrra en til samanburðar nam hagnaðurinn 1.746 milljónum árið 2017. Heildartekjur Sjóvár námu ríflega 18,1 milljarði króna í fyrra samanborið við 17,9 milljarða króna árið 2017. Hvað Sjóvá snertir þá hafði léleg afkoma af fjárfestingastarfsemi neikvæð áhrif á heildarafkomu ársins 2018. Tæplega 680 milljóna króna tap var af fjárfestingastarsemi fyrir skatt í fyrra en árið 2017 var 927 milljóna króna hagnaður af þessari starfsemi.

„Það skýrist fyrst og fremst af tapi á skráðum og óskráðum hlutabréfum en skuldabréf skiluðu einnig lægri ávöxtun en vænst var,“ er haft eftir Hermanni Björnssyni, forstjóra Sjóvár, í tilkynningu með ársuppgjörinu 2018.

Mikil sveifla hjá TM
Af tryggingafélögunum fjórum voru mestu sveiflurnar á milli ára í rekstri TM. Félagið hagnaðist um 701 milljón króna í fyrra sem þýður að samdráttur í hagnaði á milli ára nam næstum 2,8 milljörðum því árið 2017 hagnaðist félagið um ríflega 3,1 milljarð króna. Heildartekjur TM námu 17,5 milljörðum kr. í fyrra samanborið við tæplega 18,8 milljarða árið 2017. Fjárfestingatekjur voru ríflega 1,9 milljörðum króna minni í fyrra en árið 2017. Í fyrra námu þær 1.817 milljónum kr. samanborið við 3.750 milljónir árið 2017. „Árið í heild var mjög krefjandi þar sem óvenjumörg stórtjón urðu á árinu á sama tíma og verðbréfamarkaðir voru þungir,“ er haft eftir Sigurði Viðarssyni, forstjóra TM, í tilkynningu með ársuppgjörinu.

Nánar er fjallað um málið í bókinni 300 stærstu sem er komin út. Hægt er að kaupa eintak af bókinni hér .