Árið 1994 keyptu bræðurnir Árni og Hörður Sigurbjarnarsynir 20 tonna eikarbát sem bar nafnið Knörrinn. Markmið bræðranna var að gera bátinn upp og þar með að bjarga Knerrinum frá eyðileggingu. Árið 1995 var tekið upp á því að bjóða upp á hvalaskoðunarferðir á Skjálfandaflóa, en þær ferðir gerðu þeim bræðrum kleift að sinna viðhaldi á eikarbátnum. Síðan þá hefur mikið vatn runnið til sjávar, en félagið Norðursigling var stofnað í kjölfarið og varð þar með fyrsta íslenska hvalaskoðunarfyrirtækið. Norðursigling gerir í dag út tíu báta, flytur um 70.000 ferðamenn um Skjálfandaflóann og hefur nú þegar hafið útrás.

Taldi sjóstöng æskilegri

Viðskiptablaðið ræddi við Guðbjart Ellert Jónsson, framkvæmdastjóra Norðursiglingar, sem hefur starfað hjá fyrirtækinu frá árinu 2015. Þó svo að tilgangurinn hafi verið að bjarga Knerrinum, segir hann menn hafa haft misjafnar skoðanir á hvalaskoðunarævintýrinu.

„Pabbi þeirra Árna og Harðar, Bjössi Sör, sagði engan mann vilja borga fyrir það að sjá hvali og taldi það því æskilegra að setja Knörrann á sjóstöng.“ Áhugi fólks virtist þó vera til staðar því fyrsta sumarið fóru um 1.700 manns á sjóinn með Norðursiglingu. Ári síðar fjölgaði farþegunum og voru þeir fljótlega orðnir fleiri en 5.000. Guðbjartur segir það þá hafa orðið ljóst að Knörrinn myndi ekki anna eftirspurn. „Hugur þeirra bræðra leitaði fljótlega í það að bæta við sig bátum enda var Knörrinn orðinn of smár fyrir alla þessa far- þega. Þá var fjárfest í nýjum bát sem ber nafnið Haukur í dag, en saman sigldu þessir bátar um Skjálfandann þar til farþegafjöldi var orðinn 12.000 árið 1998 og þá var enn og aftur ráðist í að stækka flotann og í dag gerir félagið út 10 báta.“

Reksturinn líkur hestamennsku

Guðbjartur segir reksturinn eiga margt sameiginlegt með hestamennsku. „Það er með þetta eins og hestamennskuna, menn verða að taka ákveðnu ástfóstri við ákveðna tegund og ákveðinn uppruna. Það sést á smíði okkar báta, þeir eru flestir ættaðir að norðan og fjórir þeirra eru smíðaðir af skipasmíðastöð Gunnlaugs og Trausta.“

Eitt helsta markmið Norðursiglingar er einmitt varðveisla íslenskra eikarbáta, en félagið var í raun stofnað í þeim tilgangi að viðhalda og varðveita Knörrann. Fyrirtækið gerir út tíu báta í dag en þeir helstu eru Knörri, Bjössi Sör, Náttfari og Garðar. Helstu seglbátarnir eru svo Haukur, Hildur og Opal. Skonnortunum svipa mjög til fiskiskonnorta sem voru algengar við Norðurland á seinni hluta 19. aldar. Með þessu vildi Norðursigling viðhalda siglingakunnáttu sem var nærri gleymd. Skúturnar hafa einnig nýst vel í sérhæfð verkefni, svo sem siglingar um austurströnd Grænlands. Opal vakti svo mikla athygli því sú skúta gengur í raun einungis fyrir rafmagni.

Nánar er fjallað um málið í Frumkvöðlum, sérriti Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast eintak af blaðinu á pdf-formi með því að smella á hlekkinn Tölublöð.