Áfrýjunardómstóll í Missouri í Bandaríkjunum dæmdi Johnson & Johnson og dótturfyrirtækjum þess að greiða 2,1 milljarð dollara í skaðabætur til kvenna sem sögðu eggjastokkakrabbamein sitt vera tilkomið vegna talkúm-vara fyrirtækisins, þar á meðal hið fræga barnapúður. New York Times segir frá .

Skaðabæturnar lækka því um meira en helming frá þeim 4,7 milljörðum dollara sem var upphaflega ákveðið í júlí 2018 að fyrirtækið þyrfti að greiða konunum .

Johnson & Johnson horfir enn þá fram á þúsundir lögsókna frá neytendum sem halda því fram að talkúm-vörur þess innihaldi asbest sem valdi krabbameini. Fyrirtækið tilkynnti í síðasta mánuði að það myndi hætta að selja barnapúður unnið úr talki í Norður-Ameríku en myndi þó áfram markaðssetja vöruna annars staðar í heiminum.

Í úrskurði áfrýjunardómstólsins kom fram að minnisblöð fyrirtækisins, sem ná allt aftur til sjöunda áratugarins, gáfu til kynna að talkúm-vörurnar, sem hafa verið kallaðar „gullegg“ og „heilagar kýr“ fyrirtækisins, hafi innihaldið asbest og að steinefnið gæti verið hættulegt.

„Sanngjörn ályktun af öllum þessum sönnunargögnum er að verjendur, með hagnað að markmiði, horfðu framhjá öryggi neytenda þrátt fyrir vitneskju um að talkið í vörum þeirra valdi krabbameini,“ sagði dómstóllinn.

Stefnandinn „sýndi skýr og sannfærandi sönnunargögn um að verjandinn hafi hegðað sér með svívirðulegum hætti vegna illra hvata eða gáleysislegs afskiptaleysis.“