Íslensk-bandaríski skyrframleiðandinn Icelandic Provisions lauk á dögunum tæplega 10,6 milljóna dala hlutafjárútboði eða sem jafngildir um 1,4 milljörðum króna. Félagið gaf einnig út breytanleg skuldabréf fyrir 3,5 milljónir dala í febrúar síðastliðnum og hefur því alls sótt sér 14,1 milljón dala, eða um 1,9 milljarða króna, í ár.

Icelandic Provisions hefur nú fengið yfir 43 milljónir dala, eða sem nemur 5,6 milljörðum króna miðað við núverandi gengi, í fjármögnun frá árslokum 2015. Alls tóku nítján fjárfestar þátt í nýafstöðnu hlutafjáraukningunni en fjöldi fjárfesta í fyrri fjárfestingalotum félagsins hefur verið á bilinu 16-22.

Icelandic Provisions byrjaði sem samstarfsverkefni Mjólkursamsölunnar (MS) og bandarískra fjárfesta um skyrframleiðslu í Bandaríkjunum, að frumkvæði fjárfestingasjóðsins Polaris Founders Capital. MS hafði þar áður framleitt og flutt skyr til Bandaríkjanna til sölu í verslunum Whole Foods frá árinu 2002. Framlag MS, sem fer með um 15% hlut, til samstarfsins hefur einkum falist í þekkingarmiðlun og stuðningi. Fossar eiga einnig 2,1% hlut samkvæmt síðasta ársreikningi.

Í upphafi fór framleiðslan fram á Íslandi en færðist yfir til Bandaríkjanna sumarið 2017, þar sem framboðið hér á landi dugði ekki til að anna eftirspurn vestanhafs. Þá var flutningskostnaður einnig mikill en sökum stutts líftíma vörunnar þurfti að flytja skyrið með flugi.

Í kjölfar skuldafjárútboðsins í byrjun árs sagði Ari Edwald, sem stýrir erlendri starfsemi MS, í samtali við Viðskiptablaðið að fjármögnunin væri annars vegar til þess fallin að renna stoðum undir rekstur félagsins sem væri ekki enn farin að skila hagnaði og hins vegar til þess að fjármagna áframhaldandi uppbyggingu og fjárfestingar. „Framundan eru töluverðar fjárfestingar vegna aukinnar framleiðslu og fjölgunar vörutegunda sem kalla á aukið fjármagn,“ sagði Ari.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér . Meðal annars efnis í blaðinu er:

  • Áfengisframleiðandi hefur stefnt ÁTVR vegna meintra lögbrota við ákvörðun um hillupláss í vínbúðum.
  • Árni Oddur Þórðarson, forstjóri Marel, ræðir um þá þrjá krafta sem munu knýja vöxt félagsins næstu árin.
  • Rætt við fasteignasala hjá Mikluborg um sölu lúxusíbúða í Austurhöfn.
  • Pt Capital skoðar það að fá innlenda fjárfesta í hluthafahóp Nova.
  • Nýr sviðsstjóri markaðs- og sölusviðs dk hugbúnaðar hefur komið að stofnun fyrirtækis, tækniskóla og samtaka kvenna.
  • Rætt við stjórnendur hjá 1819 um nýtt afsláttarapp fyrirtækisins.
  • Týr fjallar um seðlabankastjóra auk þess sem Huginn og Muninn eru á sínum stað.