Ef Ísland vinnur Evrópumeistaramótið í knattspyrnu sem nú stendur yfir í Frakklandi myndi sá sem hefði veðjað 1.000 krónum á liðið þann 9. júlí 2014 græða 1 milljón króna þegar sigurinn væri í höfn 10. júlí næstkomandi.

Yrði mesta tap veðmálafyrirtækisins í sögunni

Alan Alger hjá breska veðmálafyrirtækinu Betway segir, í samtali við Viðskiptablaðið, að þeir séu mjög ánægðir með að hafa ekki tekið við mörgum veðmálum þar sem veðjað hefði verið á Ísland fyrir leikinn við England á mánudag, enda hefði það kostað þá mikið fé.

„Allir viðskiptavinir okkar vildu veðja á að England myndi vinna. Þetta voru frábær úrslit...,“ sagði hann, en hins vegar segir hann að ef Ísland stæði uppi sem sigurvegari á mótinu yrði það mesta tap þeirra í sögunni.

„Við höfum tekið við veðmálum á öllum stigum allt frá hlutfallinu 1000/1 til núverandi verðs,“ segir Alan áður en hann óskar Íslandi velgengi í leiknum á sunnudag.

Hlutfallið hefur farið stiglækkandi

Eins og áður segir voru hlutföllin 1000/1 hjá veðmálafyrirtækjum í Bretlandi fyrir því að Ísland myndi vinna mótið, áður en Ísland sigraði Tyrkland með þremur mörkum gegn engu í upphafsleik undankeppninnar.

Þegar undankepnin var hálfnuð var hlutfallið komið niður í 250/1, en í byrjun mótsins sjálf var það orðið 125/1, hjá Betway, en 150/1 hjá Ladbrokes. Fór hlutfallið niður í 125/1 eftir jafnteflið við Portúgal sem hélst eftir jafnteflið við Ungverjaland.

Eftir sigurinn gegn Austurríki fór hlutfallið niður í 50/1. Eftir sigurinn gegn Englandi er það 40/1 hjá Ladbrokes, en hjá Betway er það komið niður í 33/1, svo fyrir hverjar 1.000 krónur sem lagðar væru undir hjá þeim nú um að Ísland myndi sigra Evrópumótið myndi það skila 33.000 krónum til þess sem veðjaði.

Margföld ávöxtun ef veðjað á rétt úrslit

Fyrir leikinn á sunnudag er veðhlutfallið hjá Betway nú 15/2 að Ísland sigri Frakkland á venjulegum leiktíma en hlutfallið fer niður í 4/1 ef bara er horft til þess hvort landsliðið komist í undanúrslit.

Svo fyrir hverjar 1.000 krónur sem veðjaðar væru á að Ísland sigri Frakkland á venjulegum leiktíma myndu fást 7.500 krónur.