Heildarmat fasteigna hér á landi hækkar um 6,1% milli ára og verður rúmlega 9 þúsund milljarðar króna samkvæmt nýju fasteignamati Þjóðskrár sem kynnt var í dag. Matið hækkar meira á landsbyggðinni heldur en höfuðborgarsvæðinu. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Þjóðskrá.

Hækkunin nú er talsvert minni nú en síðast en hækkunin milli 2017 og 2018 nam tæplega þrettán prósentum. Samanlagt mat íbúða á öllu landinu hækkar um 6% milli ára og eru þær rúmlega tveir þriðju af heildarverðmæti fasteigna eða tæplega 6.594 milljarðar. Sérbýli hækka meira en eignir í fjölbýli eða um 6,6% samanborið við 5,3%.

Mesta hækkunin er á Akranesi, 21,6%, og þar á eftir kemur Suðurnesjabær, sameinað sveitarfélag Sandgerðis og Garðs, en þar nemur hækkunin 17,7%. Þriðja mesta hækkunin er í Vestmannaeyjum, 16,6%.

Hækkunin á höfuðborgarsvæðinu nemur kringum fimm prósentum á íbúðarhúsnæði en tæpum sex prósentum á atvinnuhúsnæðinu. Í tilkynningu Þjóðskrár kemur fram að matssvæðum á höfuðborgarsvæðinu hafi verið fjölgað til að matið endurspegli nákvæmar þær verðbreytingar sem orðið hafa á svæðinu. Meðalhækkun á landsbyggðinni er rétt rúm níu prósent og gildir þá einu hvort um er að ræða íbúðar- eða atvinnuhúsnæði. Fasteignamat sumarhúsa er nánast óbreytt milli ára og hækkar um 0,7%.

„Með fjölgun matssvæða er hægt að aðgreina betur fasteignamat ólíkra svæða og lækka viss strjálbyggð svæði sem hafa takmarkaðar samgöngur og eru langt frá annarri byggð. Hér má nefna svæði eins og hálendið, Flateyjardal, Norður-Þingeyjarsýslu, Siglunes, Skaga, Austurland, Norður- Múlasýslu, Mjóafjörð og fleiri svæði þar sem fasteignamat lækkar um meira en 30%. Þau svæði sem hækka mest eiga það sameiginlegt að þar eru sumarhúsalóðir að jafnaði stórar og má þar nefna svæði eins og Galtarlæk, Eystri Rangá og Hróarslæk þar sem fasteignamat hækkar um meira en 25%,“ segir í tilkynningunni.

Fasteignaeigendur geta sótt upplýsingar um mat sitt á Ísland.is. Verðmatið miðar við virði eigna í febrúar 2019 og tekur gildi um næstu áramót og gildir fyrir árið 2020. Frestur til athugasemda við matið er til 30. desember 2019.