Covid-19 veiran hefur haft gífurleg áhrif á veitingageirann og ýmsum veisluhöldum hefur verið frestað eða aflýst. Vínframleiðendur í austur Champagne héraðinu segja að allt að 1,7 milljarðar evra hafi glatast í sölu á árinu vegna heimsfaraldursins.

„Við erum að upplifa neyðarástand sem við teljum vera verra en í Kreppunni mikli,“ sagði einn framleiðandi við fréttastofuna Associated Press í síðustu viku.

Þeir hafa kallað til neyðarfundar þann 18. ágúst, þar sem líklegt er að tugir milljóna kampavínsflaska fari til spillis á sama tíma og stór hluti þrúga eru tilbúnar til uppskeru.

Kampavínsráðið, sem samanstendur af 16 þúsund vínframleiðendum, mun þar ákveða um hvort það þurfi að fjarlægja umframþrúgur og senda þær til eimingarhúsa til að framleiða handspritt. Hugmyndin um að hin fræga þræga verði nýtt í handspritt hefur farið öfugt í suma og einn vínframleiðandi sagði það vera „vanvirðingu við náttúruna“.

Einnig hefur verið ósætti um hversu mikið kampavín ætti að átappa í ár en framleiðendur hafa kallað eftir minni framleiðslu vegna samdráttar í sölu. Ræktunarmenn segja hins vegar að það muni hafa veruleg áhrif á tekjur þeirra, að því er fram kemur í fréttaflutningi BBC .