Eftirspurn eftir farþegaflugi á heimsvísu jókst um 4,5% á árinu 2019 mælt í tekjum á farþegakílómeter (e. revenue passenger kilometers) samkvæmt gögnum sem alþjóðasamtök flugfélaga, IATA , gáfu út í síðustu viku. Þá jókst sætanýting einnig milli ára en vöxtur í sætaframboði var um 3,4% á árinu 2019.

Þrátt fyrir töluverðan vöxt í eftirspurn var árið í fyrra það fyrsta frá hruni þar sem hann var undir langtímavexti upp á um 5,5%. Þá hægðist töluvert á vexti í eftirspurn milli ára en árið 2018 var hann 7,3%.

Samkvæmt IATA skýrist hægari vöxtur af kólnun í heimshagkerfinu, samdrætti í alþjóðaviðskiptum og vegna pólitískrar spennu á ýmsum svæðum í heiminum.

Mestur vöxtur í eftirspurn á síðasta ári var á mörkuðum í Afríku og Austur-Asíu eða 4,9 og 4,8%. Vöxtur í Evrópu og Suður-Ameríku nam 4,2% auk þess sem hann var 4,1% í Norður-Ameríku. Minnstur vöxtur var hins vegar í Mið-Austurlöndum eða 2,4%.

IATA gerir ráð fyrir að vöxtur í eftirspurn eftir farþegaflugi dragist saman á árinu 2020 og verði um 4,1%. Samkvæmt IATA virðist spáin þó bera meiri óvissu niður á við þar sem hún gerir ráð fyrir því að umsvif í heimshagkerfinu muni aukast á árinu og það sama muni eiga við um alþjóðaviðskipti. Þá er einnig bent á útbreiðsla kórónaveirunnar skapi óvissu niður á við þó of snemmt sé að segja til um hver áhrifin verði í raun. Bendir IATA á að söguleg gögn gefi til kynna að áhrif á eftirspurn eftir flugi vegna útbreiðslu sjúkdóma séu tiltölulega skammvinn.