Icelandic Startups og fjarskiptafyrirtækið Nova kynntu í vikunni nýja viðskiptahraðalinn Startup SuperNova . Þegar hefur verið opnað fyrir umsóknir og er umsóknarfrestur til 10. júní. Þátttakendur verða kynntir 18. júní og hraðallinn hefst síðan 22. júní.

Síðasta haust dró Arion banki sig út úr samstarfi við Icelandic Startups vegna viðskiptahraðalsins Startup Reykjavík. Hafði bankinn þá stutt verkefnið frá árinu 2012.

Salóme Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri Icelandic Startups , segir að vitað hafi verið að Arion banki myndi ekki styrkja verkefnið til eilífðarnóns. Ákveðnar breytingar hafi orðið í starfsemi bankans á síðasta ári og því hafi það ekki komið á óvart að hann hafi dregið sig út úr samstarfinu. Hins vegar hafi komið á óvart hversu snöggt það gerðist.

Skorið inn að beini

Hún segir að í byrjun árs hafi viðræður við Nova hafist af krafti og nú hafi fyrirtækið tekið við kyndlinum og Startup SuperNova verði flaggskipið í starfsemi Icelandic Startups .

„Þetta er mjög stór áfangi,“ segir Salóme. „Þegar Reykjavík Startups hætti skildi það eftir stórt skarð. Við höfum þurft að skera verulega niður síðan síðasta haust, í raun alveg inn að beini, en nú erum við aftur komin af stað og það hefur mikla þýðingu fyrir íslenska frumkvöðlasamfélagið . Það er gríðarlega jákvætt og spennandi að Nova sé tilbúið að koma inn með svona miklum krafti.“

Þegar Arion banki var bakhjarlinn lagði hann 2,4 milljónir í verkefni gegn því að fá 6% eignarhlut. Salóme segir að á þessu verði breyting. Öllum verkefnum standi til boða að fá styrk upp á eina milljón gegn því að Icelandic Startups , Nova og Gróska fái kauprétt að 5% eignarhlut.

„Ef fyrirtækin vilja ekki þiggja styrkinn þá fellur kauprétturinn niður. Með þessu teljum við að það verði meiri sveigjanleiki í starfinu,“ segir Salóme.

Önnur breyting á hraðlinum er að nú verður ekki sett það skilyrði fyrir þátttöku að fyrirtækin séu nýstofnuð. Salóme segir algengt að rótgróin fyrirtæki séu í nýsköpun. Þessi fyrirtæki muni geta sent teymi í nýja viðskiphraðalinn til þess að þróa áfram nýja hugmynd eða tækni. Hún segir fjölmörg dæmi um að eldri fyrirtæki hafi náð langt í nýsköpun. Ágætt dæmi sé Tempo , sem varð til hjá Origo , áður Nýherja.

„Ég tel að það sé mikill ávinningur fólginn í því fyrir þetta fólk að koma til okkar og taka þátt í þessu kraumandi frumkvöðlastarfi , sem þrífst innan svona viðskiptahraðals. Ég vil líka hvetja stjórnendur fyrirtækja, sem þurft hafa að draga úr starfsemi sinni vegna heimsfaraldursins, sérstaklega til að sækja um. Þátttaka gæti þróað fyrirtækið í nýjar áttir og gert það reiðubúið til að takast á við breyttar aðstæður.“

Tíu fyrirtæki valin til þátttöku

Alls verða 10 sprotafyrirtæki valin til þátttöku í Startup SuperNova . Hverju þeirra mun standa til boða milljón króna styrkur eins og áður sagði en einnig fá þau aðgang að vinnuaðstöðu og njóta leiðsagnar reyndra frumkvöðla, fjárfesta, stjórnenda og ráðgjafa. Hraðallinn verður starfræktur í tíu vikur. Að þeim loknum verður haldinn fjárfestadagur þann 28. ágúst, þar sem fyrirtækin kynna sig fyrir fjárfestum. Á meðal fyrirtækja sem hafa stigið sín fyrstu skref með þessu hætti eru Authenteq , Kaptio , Activity Stream , Florealis , Jurt Hydroponics og Keynatura , Meniga , Controlant , Solid Clouds , eTactica og Videntifie .

Í sumar mun hraðallinn hafa vinnuaðstöðu í frumkvöðlasetri Háskólans í Reykjavík í Nauthólsvík. Til framtíðar mun Startup SuperNova hins vegar hafa aðstöðu í Grósku hugmyndahúsi, sem verið er að byggja í Vatnsmýrinni

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .