María Hrund Marinósdóttir hefur opnað nýja umboðsstofu fyrir listamenn sem ber heitið Móðurskipið. María hefur um árabil starfað á sviði markaðsmála og í auglýsingageiranum, en áður en hún ákvað að opna umboðsstofuna starfaði hún sem markaðsstjóri Borgarleikhússins.

„Mig hafði alltaf langað til að prófa að starfa sjálfstætt og á síðasta ári ákvað ég loks að láta til skara skríða. Mig hefur einnig lengi langað til að starfa sem umboðsmaður og eftir að ég lét af störfum í Borgarleikhúsinu tók ég að mér að verða umboðsmaður Sögu Sig, ljósmyndara. Samhliða því starfaði ég í markaðsráðgjöf fyrir hin og þessi fyrirtæki og stofnanir," segir María.

Fljótt að vinda upp á sig

María segir að hún hafi í fyrstu ætlað sér að halda áfram að samtvinna umboðsmennskuna og markaðsráðgjöfina, en áskorun frá leikkonunni Kristínu Þóru Haraldsdóttur varð til þess að hún ákvað að einbeita sér alfarið að umboðsmennskunni.

„Kristín bað mig um að verða umboðsmaðurinn hennar. Hún hafði tekið eftir því að íslenskir leikarar þurfa nauðsynlega á umboðsmanni að halda á erlendum vettvangi. Erlendis eru nær allir leikarar með umboðsmenn en hér heima hafa leikarar oft verið að sjá um sín málefni sjálfir.

Eftir að hafa hugsað málið ákvað ég að stökkva á tækifærið og út frá því voru hlutirnir fljótir að vinda upp á sig. Ég hafði í fyrstu hugsað um að vinna bara fyrir fáa listamenn en svo á stuttum tíma var ég orðin umboðsmaður margra af flottustu leikurum landsins. Þá sá ég að ég gæti ekki bara tekið umboðsmennskuna með vinstri og þyrfti að hella mér út í hana af fullum krafti."

Eins og sakir standa er María eini starfsmaður umboðsstofunnar og segir hún óráðið hvort fleira starfsfólk bætist í hópinn síðar meir. „Það fer svolítið eftir því í hvaða átt ég fer með þetta, en það er aldrei að vita hvað framtíðin ber í skauti sér."

Landsþekktir listamenn á mála

Fjölbreytt flóra listamanna, líkt og leikarar, leikkonur, veislustjórar, uppistandarar, fyrirlesarar, handritshöfundar og ljósmyndarar, er á meðal viðskiptavina Móðurskipsins. Meðal þeirra sem eru á mála hjá umboðsstofunni eru þjóðþekktir listamenn líkt og Ingvar E. Sigurðsson, Þorsteinn Bachmann, Kristín Þóra Haraldsdóttir, Saga Garðarsdóttir, Elma Lísa Gunnarsdóttir og Bergur Ebbi Benediktsson.

„Til að byrja með hef ég aðallega verið að starfa með leikurum. Ég hef mikinn áhuga á að starfa með hæfileikaríku fólki úr hinum ýmsu listgreinum, en ég vil að sama skapi stíga varlega til jarðar og taka eitt skref í einu. Því einbeiti ég mér að því að verða eins góð og ég get á núverandi sviði áður en ég fer að færa út kvíarnar.

Mig langar auðvitað að taka að mér að vera umboðsmaður fyrir fleiri listamenn, en vil þó passa upp á að taka að mér hóflegt magn verkefna. Þannig get ég tryggt að ég hafi tíma til að byggja upp gott samstarf við hvern og einn listamann."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .