Árvakur, útgáfufélag Morgunblaðsins hagnaðist um 110 milljónir króna eftir 75 milljóna tap árið 2020 að þvi er fram kemur í Morgunblaðinu í dag. Þá var Þórsmörk, móðurfélag Árvakurs, rekið með 186 milljóna hagnaði eftir 62 milljóna króna tap árið 2020. Þetta er í fyrsta sinn frá árinu 2013 sem Árvakur og Þórsmörk skila hagnaði.

Tekjur samstæðunnar námu 4,9 milljörðum króna og jukustu um tæpar 300 milljónir króna á milli ára.

Dótturfélag Þórsmerkur hefur jafnframt fest kaup á húsnæði ritstjórnarskrifstofa Árvakurs við Hádegismóa 4 af fasteignafélaginu Regin á 1,59 milljarða króna. Byggingin er 3.852 fermetrar og að hluta í útleigu til annarra aðila. Prentsmiðjuhúsið er 6.476 fermetrar og var fyrir í eigu Þórsmerkur.

„Það er afskaplega ánægjulegt að fyrirtækið skuli aftur vera að fullu komið í eigið húsnæði eftir að hafa verið að hluta til í leiguhúsnæði eftir að það fluttist í Hádegismóa. Þetta treystir reksturinn og ég tel einnig að í Hádegismóum séu töluverð tækifæri til framtíðar. Svæðið er vaxandi og vel staðsett,“ er haft eftir Sigurbirni Magnússyni stjórnarformanni félagsins í Morgunblaðinu í dag.