Frá og með deginum í dag verða svokölluð Jöklabréf bönnuð, samkvæmt nýjum reglum Seðlabanka Íslands . Þegar gjaldeyrishöftum var aflétt í mars síðastliðnum var útgáfa skuldabréfa í íslenskum krónum erlendis heimiluð á ný. Bréfin stuðluðu hins vegar að auknu innflæði fjármagns og sterkari krónu. Ástæðan er sú að áhugi erlendra aðila á vaxtamunaviðskiptum hefur aukist að undanförnu og því hafa jöklabréfin verið bönnuð

Í viðtali við Rúv segir Gylfi Magnússon, hagfræðingur og dósent við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands, það vera ljóst að þetta sé forvarnaraðgerð. Segir hann að menn í Seðlabankanum hafi talið hættu á því að innstreymi erlends fjármagns til landsins myndi aukast á næstu misserum og eitthvað af því gæti farið um svokallaða jöklabréfaleið.

Gylfi segir að ef innstreymi fjármagns sé mikið byggist eðlilega upp skuld við útlönd sem menn geti lent í vandræðum með að greiða af ef flæðið snúist við. Þetta var í grundvallaratriðum það sem gerðist á árunum 2007 og 2008 og var hluti af skýringunni á falli bankanna. Þessi staða sé hins vegar ekki komin upp núna.  „Þannig að það er ekki verið að bregðast við neinni bráðri vá, en frekar verið að byrgja brunninn áður en barnið kemst nálægt honum,“ segir hann.

Að lokum segir Gylfi að með því að banna jöklabréf sé auðveldara að réttlæta hærri vexti. Háu vextirnir séu gulrótin sem þeir sem eiga fé í útlöndum séu að leitast eftir og þeir séu eiginlega skýringin á innflæðinu, þó fleira skipti máli. Segir hann að Seðlabankinn vilji hafa tiltölulega háa vexti til þess að kæla hagkerfið og vinna gegn því að verðbólga komist aftur á skrið. Seðlabankinn muni hins vegar eiga erfitt með það ef afleiðingin verði bara innflæði erlends fjármagns og hækkun gengis krónunnar.