Skátastúlka seldi 312 kassa af kökum á nokkrum klukkustundum um helgina fyrir utan sérverslun með maríúana og kannabis í San Diego í Kaliforníu.  Þó ríkið hafi leyft sölu fíkniefnisins til almennings er ekki ljóst hvort hin níu ára gamla skáti hafi brotið reglur skátasambandsins en hún var í fylgd með föður sínum.

Komst málið í fréttir í landinu í kjölfar þess að verslunin póstaði á Instagram mynd af stúlkunni fyrir utan verslunina. Hvatti verslunin viðskiptavini til að grípa með sér kassa í leiðinni, en þekkt er að neytendur kannabisefna fái mikla löngun í sætindi og feitan mat eftir neyslu.

„Ég held að viðskiptavinir okkar hafi elskað þetta,“ sagði Savannah Rakofsky frá versluninni sem ber heitið Urban Leaf. „Þeir fóru og keyptu kassa.“

Rakofsky póstaði myndinni með hvatningu um að viðskiptavinirnir fengju sér skátakökur með GSC, en það er skammstöfun um kannabistegund sem er nefnd eftir smákökunum vinsælu.