Monsanto hafnar 62 milljarða dala tilboði þýska efnarisans Bayer og telur tilboðið sem hljóðaði uppá 122 bandaríkjadali á hlut vera of lágt þó það hafi verið 37% hærra en markaðsvirði hlutabréfa þess var þegar tilboðið var lagt fram.

Forstjóri Monsanto, Hugh Grant, sagði í yfirlýsingu að tilboðið undirverðlagði fyrirtækið umtalsvert á sama tíma og það tryggði ekki nægilega gegn þeirri mögulegu fjármögnunar og reglugerðaráhættu sem yfirtökunni gæti fylgt.

En jafnframt tók hann það fram að sameining gæti verið til hagsbóta fyrir bæði fyrirtækin og jafnvel samfélagið allt, en fyrirtæki hans er einn stærsti sáðkornaframleiðandi heims ásamt því að vera stórt í efnaframleiðslu alls konar.

Vantrú á markaði að samkomulag náist

Nú þarf Bayer að ákveða hvort þeir hækki tilboð sitt, jafnvel þó fyrirtækið sé gagnrýnt af eigin hluthöfum sem telja tilboðið of hátt, eða hætti við. Þriðji valmöguleikinn væri að fara út í óvinveitta yfirtöku.

Hlutabréf í Monsanto hækkuðu um 1,5% í 107,61 dali hver hlutur í morgun, sem er þó langt undir tilboði Bayer. Er það talið sýna vantrú markaðarins á því að samkomulag náist. Hlutabréf í Bayer hækkuðu einnig eða um 3,23% í 87,15 evrur á hlut.

Risatilboð í kjölfar samþjöppunar markaða

Mikil samrunahrina er að eiga sér stað um heim allan í landbúnaðarefnaiðnaðinum um þessar mundir, meðal annars vegna lækkunar á hrávöruverði um allan heim, en einnig vegna þess að mikil samþjöppun er á mörkuðum fyrir sáðkorn og skordýraeitur.

Hefði tilboði Bayer verið tekið hefði þetta verið stærsta yfirtaka sögunnar þar sem greitt væri reiðufé fyrir hvern hlut.