Bandaríski fjárfestingabankinn Morgan Stanley mun greiða bandarískum yfirvöldum 3,2 milljarða dollara í sáttagreiðslu til að koma í veg fyrir ákæru um að hafa afvegaleitt fjárfesta í aðdraganda fjármálakreppunnar 2008.

Árið 2015 var samið um að bankinn myndi greiða 2,6 milljarða dollara en yfirvöld í New York börðust fyrir því að upphæðin yrði hærri. Morgan Stanley viðurkenndi að hafa ekki komið hreint fram í sölu á húsnæðisskuldabréfum sem síðar urðu verðlaus þegar fasteignamarkaðurinn hrundi.

Erik Schneiderman, yfirsaksóknari í New York, sagði að sáttabæturnar yrðu notaðar til að hjálpa þeim fjölskyldum og samfélögum sem þurfa mest á þeim að halda. Fara þær m.a. í að hjálpa íbúum New York að komast hjá því að vera bornir út af heimilum sínum.

Sáttagreiðsla Morgan Stanley er mun lægri en hjá öðrum bönkum á borð við Bank of America sem borgaði 16,65 milljarða dollara í bætur. Ástæðan er m.a. sú að Morgan Stanley gaf ekki út húsnæðislánin til að byrja með heldur keypti lán frá öðrum bönkum og bjó til skuldavafninga úr þeim.

Þess má geta að sáttagreiðsla Morgan Stanley nemur um 20% af landsframleiðslu Íslands.