Huld Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins, tók við starfi framkvæmdastjóra sjóðsins í fyrra. Fram að því hafði hún starfað hvort tveggja í opinbera og einkageiranum. „Þessi blanda verður til þess að ég kem hingað því ég þekki bæði umhverfin mjög vel,“ segir Huld. Hún starfaði fyrir tvær stofnanir sem heyra undir velferðarráðuneytið áður en hún tók við stöðu framkvæmdastjóra. Rætt var við Huld í Viðskiptablaði vikunnar, en hægt er að nálgast það hér .

„Frá 2009 var ég forstöðumaður Miðstöðvar fyrir blinda og sjónskerta, sem var stofnuð 2008 og er um margt mjög sérstök. Þar var algjörlega ný hugmyndafræði og ný nálgun og ný þjónusta. Ég byggði hana upp ásamt einvala hópi starfsfólks. Þetta var mikil áskorun en líka skemmtilegt og gefandi á mjög krefjandi tímum. Lögin um þessa stofnun voru einu lögin sem fóru gegnum Alþingi eftir hrun. Þetta var það eina sem menn urðu sammála um í hruninu.“

Nú síðast leysti Huld svo af forstjóra Tryggingastofnunar. „Ég kem inn í þetta umhverfi frá Össuri. Þar byrja ég 1993 og var í fimmtán ár til 2008. Þegar ég kem til Össurar er það bara lítið félag að byrja og alveg magnað að fara gegnum þá vegferð að Össur verður það mikla fyrirtæki sem það er í dag um allan heim. Starf mitt þar var meira og minna í Bandaríkjunum.“

Hún segir lærdóminn frá tíma sínum hjá Össuri, sérstaklega frá upphafinu, fyrst og fremst vera að á þessum stigum fyrirtækja taki maður þátt í öllu. „Maður er með marga hatta og að sinna einu í dag og öðru á morgun.“ Þegar Huld hóf störf hjá Össuri störfuðu um 25 hjá fyrirtækinu. Árið 2008 voru starfsmennirnir orðnir 1.700 og voru um 2.950 að jafnaði í fyrra. „Þegar ég fór var búið að kaupa fullt af fyrirtækjum og félagið orðið bæði stórt og flókið. Það var auðvitað frábært að taka þátt í þessu, að fara í gegnum allar þessar breytingar, lærdóm og mistök. Margt var gert mjög vel en annað ekki eins vel,“ segir Huld. „Blandan af þessu og reynslunni af því að fara til ríkisins og búa til eitthvað nýtt þar hefur orðið til þess að ég kem til Nýsköpunarsjóðsins.“

Sjóðurinn séð um sig sjálfur

Huld segir að hennar upplifun af starfsemi Nýsköpunarsjóðs sé að hann sé á mörkum hins opinbera og einkageirans. Sjóðurinn er stofnun í eigu íslenska ríkisins sem hefur það hlutverk að stuðla að uppbyggingu og vexti íslensks atvinnulífs með því að taka þátt í fjárfestingum í sprota- og nýsköpunarfyrirtækjum.

„Það er samt mikill munur á sjóðnum og öðrum stofnunum að því leytinu til að hann er ekki á fjárlögum. Það kemur ekkert fjármagn frá ríkinu til hans. Það var lagt til fjármagn í sjóðinn þegar hann var stofnaður fyrir tuttugu árum og á því fjármagni hefur sjóðurinn rekið sig. Tvisvar á tímabilinu hafa komið inn peningar frá ríkinu, annars vegar fyrir söluna á Landsímanum 2005, sem var notað í sérverkefni en ekki rekstur sjóðsins og hins vegar 2007 og 2008. Það var eyrnamerkt fjárfestingum í öðrum sjóðum,“ segir Huld og bendir á að sjóðurinn hafi ekki eingöngu stundað beinar fjárfestingar heldur einnig fjárfest í sjóðum.

„Að öðru leyti hefur sjóðurinn þurft að sjá um sig sjálfur. Það finnst mér vera töluvert afrek. Starfsmenn sem hafa verið hérna síðastliðin tuttugu ár hafa unnið gríðarlega gott starf við að láta þetta ganga í þennan tíma.“ Nýsköpunarsjóður hefur frá stofnun verið hornsteinn í fjármögnunarumhverfi sprotafyrirtækja. Á tímabilinu 2001 til 2015 var sjóðurinn einn af fáum fjárfestum sem komu inn í sprotafyrirtæki á fyrstu stigum. Hann er auk þess að mörgu leyti ólíkur öðrum sambærilegum sjóðum.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .