Undanfarin ár hefur Mosfellsbær borið höfuð og herðar yfir önnur sveitarfélög í íbúðauppbyggingu. Samkvæmt skýrslu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar fjölgaði íbúðum í Mosfellsbæ um ríflega 40% á árunum 2009 til 2019, langt um meira en í öðrum sveitarfélögum landsins.

Uppbygging undanfarinna ára hefur einkum átt sér stað í þremur hverfum, það er í Leirvogstunguhverfi, Helgafellshverfi og miðbæ Mosfellsbæjar.

„Í Leirvogstunguhverfi, sem er nær fullbyggt, er gert ráð fyrir 1.300 til 1.500 íbúum í um 450 íbúðum sem öll eru sérbýli, það er raðhús, parhús og einbýlishús. Í Helgafellshverfi stendur uppbygging enn yfir en þar er gert ráð fyrir rúmlega 3.300 íbúum í um 1.200 íbúðum sem ýmist eru fjölbýli eða sérbýli. Í miðbænum verða einvörðungu fjölbýli, allt frá um 40 fermetra íbúðum upp í veglegar þakíbúðir. Þar eru nú um 250 íbúðir ýmist tilbúnar eða í byggingu og er uppbygging að hefjast á 100 íbúðum til viðbótar. Auk þessa vinnur Mosfellsbær að undirbúningi verkefnis í samvinnu við Eir og fjárfesta sem snýr að þjónustuíbúðum fyrir eldri borgara í miðbænum, en íbúðirnar gætu orðið um 200 talsins," segir Haraldur Sverrisson, bæjarstjóri Mosfellsbæjar.

Lykilatriði að áhættan liggi ekki hjá bænum

Uppbygging var hafin í Leirvogstunguhverfi og innviðauppbygging hafin í Helgafellshverfi þegar fjármálahrunið skall í október 2008.

Haraldur segir að það að deiliskipulag hverfanna hafi legið fyrir þegar hrunið skall á og að gatnakerfið hafi að hluta til verið tilbúið, hafi auðveldað bænum að hefja uppbyggingu á ný þegar hjólin tóku að snúast. Þá hafi samningar bæjarins við landeigendur um uppbyggingu á svæðunum komið í veg fyrir fjárhagslegt tjón sveitarfélagsins.

„Það var okkur til happs að bærinn hafði ekki farið hina hefðbundnu leið að kaupa upp land og hefja innviðauppbyggingu á eigin vegum, og lenda svo í því líkt og mörg önnur sveitarfélög, sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu, að öllu er skilað með tilheyrandi vandræðum fyrir bæjarsjóðina. Við vorum því skipulagslega, innviðalega og fjárhagslega betur undir það búin að geta farið hratt af stað með töluvert mikla uppbyggingu," segir Haraldur.

Byggingarland í Mosfellsbæ er að stórum hluta í eigu einkaaðila og sér Haraldur ótvíræða kosti við samstarf sveitarfélagsins og einkaaðila um uppbyggingu í bænum.

„Við höfum ekki farið í það að kaupa upp byggingarland til uppbyggingar og gerðum það ekki í aðdraganda hrunsins. Til þess að geta byggt upp á þessum hraða sem nú er var lykilatriði að áhættan af því að eiga landið liggur ekki hjá Mosfellsbæ. Við það ávannst tvennt. Annars vegar að höggið lenti ekki á sveitarfélaginu þegar fjármálakerfið hrundi og hins vegar var til staðar geta til að taka á móti vextinum hratt og örugglega þegar uppsveiflan hófst."

Gæta skynsemi í uppbyggingu

Haraldur segir mjög mikla ásókn vera af hálfu aðila sem vilja fá að byggja og skipuleggja í Mosfellsbæ en bærinn hafi þurft að stýra slíku skipulagi skynsamlega.

„Við gætum verið búin að skipuleggja hér um allar koppa og grundir en það væri tæplega skynsamlegt. Hröð íbúafjölgun krefst mjög mikillar skipulagningar og fjárfestingar í innviðauppbyggingu sem snýr að fleiru en bara gatnagerð, gangstéttalagningu og þess háttar. Bærinn þarf að geta veitt nýjum íbúum framúrskarandi þjónustu. Það þarf að tryggja leik- og grunnskólapláss, framboð íþrótta- og tómstundastarfs og félagsþjónustu svo nokkuð sé nefnt. Okkar verkefni hefur verið gæta skynsemi og byggja upp með réttum hætti og á réttum stöðum."

Mosfellsbær er landmikið sveitarfélag sem býr yfir mörgum óbyggðum byggingarsvæðum og því ljóst að möguleikar bæjarins til áframhaldandi uppbyggingar eru miklir.

„Samkvæmt aðalskipulagi Mosfellsbæjar, sem að vísu er í endurskoðun núna, getur bærinn orðið að 40 til 50 þúsund manna sveitarfélagi. Blikastaðaland, Lágafellsland, Sólvallaland, Akraland og Reykjaland eru dæmi um lönd sem eru að mestu leyti óbyggð sem unnt verður að byggja upp á næstu árum og áratugum," segir Haraldur.

Fjölgun ekki dregið úr íbúaánægju

Íbúafjöldi í Mosfellsbæ hefur aukist um helming frá árinu 2009. Samhliða svo mikilli og hraðri fjölgun getur reynst krefjandi að viðhalda þjónustustigi, en ánægjukönnun Gallup gefur til kynna að vel hafi tekist til í þeim efnum í Mosfellsbæ.

Bærinn hefur í áraraðir verið meðal þeirra sveitarfélaga sem mælast með mesta ánægju íbúa og hefur hin hraða íbúafjölgun ekkert dregið úr ánægjunni, en heildaránægja hefur mælst á bilinu 4,4 til 4,6 stig af 5 mögulegum frá árinu 2008.

Árið 2020 mældist heildaránægja með sveitarfélagið sem stað til að búa á sú önnur mesta á landsvísu og mældist bærinn vel yfir landsmeðaltali í öllum flokkum utan tveggja, hvar bærinn liggur við landsmeðaltalið.

Nánar er fjallað um málið í Fasteignamarkaðnum , fylgiriti Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .