Ráðherranefnd um efnahagsmál hefur sent frá sér yfirlýsingu vegna auglýsingu Iceland Watch um meðferð aflandskróna. Nefndin fundaði með Má Guðmundssyni seðlabankastjóra í morgun, eins og áður hefur komið fram á vef Viðskiptablaðsins .

„Stjórnvöld mótmæla rangfærslum þeim sem birtast í þessum auglýsingum.  Ljóst er að erlendir aðilar, sem telja sig hafa hagsmuni af því að ráðstöfunum um meðferð aflandskróna verði breytt, standa að baki þessum auglýsingum, þar sem einnig er vegið með ósmekklegum hætti að starfsheiðri tiltekinna starfsmanna Seðlabanka Íslands,“ segir í yfirlýsingu sem ráðherrahópurinn sendir frá sér.

Þar er einnig komið áleiðis að einstakir stærri aflandskrónueigendur hafa að undirförnu freistar þess að hafa áhrif á alþjóðlegar stofnanir, lánshæfismatsfyrirtæki og almenna fjölmiðlaumfjöllun — en lítið hefur gengnið.

Einnig er tekið fram að; „Lánshæfismatsfyrirtæki hafa hækkað eða staðfest mat á lánshæfi Íslands í kjölfar lagabreytinga um fjármagnhöftin og Eftirlitsstofnun EFTA hefur gefið út bráðabirgðaálit þess efnis að ekki sé tilefni til að gera athugasemdir við ráðstafanir íslenskra stjórnvalda varðandi  meðferð aflandskróna.

Tilgangur laga um meðferð krónueigna er að aðgreina aflandskrónueignir tryggilega svo mögulegt sé að stíga næstu skref í losun hafta og koma á frjálsum milliríkjaviðskiptum með krónur á ný án þess að fjármálastöðugleika eða stöðugleika í gengis- og peningamálum verði ógnað.“