Hópur mótmælenda heimsótti höfuðstöðvar Landsbankans í dag, þar sem Steinþór Pálsson bankastjóri Landsbankans var úthrópaður fyrir spillingu og klúður. Bankastjórinn var meðal annars sakaður um að vera vanhæfur í starfi, fyrir að hafa „klúðrað sölunni á Borgun".

Blásið var til mótmæla vegna Borgunarmálsins svokallaða, sem Viðskiptablaðið hefur fjallað um áður . Borið hefur á miklu ósætti við söluferli hlut Landsbankans í Borgun, en bankinn hefur verið sakaður um spillingu.

Söluferlið umdeilda árið 2014

Landsbankinn seldi hlut sinn í Borgun í nóvember 2014, en söluferlið var ekki formlegt og hluturinn ekki auglýstur. Vakið hefur athygli að Einar Sveinsson, föðurbróðir Bjarna Benediktssonar, auk annarra fjárfesta, hlutu kauprétt í söluferlinu. Eins og kunnugt er fer íslenska ríkið með 98% hlut í Landsbankanum.

Eins og fjallað hefur verið um í fjölmiðlum síðustu daga munu kortafyrirtækin Valitor og Borgun hagnast umtalsvert á yfirtöku Visa International á Visa Europe. Hver og einn kortaútgefandi Visa fékk hlutdeild í Visa Europe þegar útgefandinn fékk leyfisveitingu hjá félaginu. Yfirtakan mun auka virði hlutanna sem Borgun og Valitor höfðu um allt að 20 milljarða króna.

Illa heyrist til bankastjórans

Á mótmælafundinum sagði Steinþór meðal annars, innan um hróp og köll mótmælenda, að Landsbankinn hefði ekki tapað milljörðum á sölu Borgunar. Ef til vill væru það einhverjar hundruðir milljóna sem töpuðust, en erfitt væri þó að segja til um það.

Hvað varðar söluferlið sagði Steinþór að vandkvæðasamt hefði verið að setja hlut bankans í opið söluferli vegna hagsmunatengsla stjórnenda Borgunar, sem vildu sjálfir kaupa hlutinn - og leiddu fjárfestahópinn sem keypti hlutinn að lokum.

„Við hugsuðum: ‘Eigum við að fara með [sölu Borgunar] í opið söluferli?’ Ef við hefðum viljað fara með þetta í opið söluferli hefðum við þurft að fá upplýsingar frá stjórnendum Borgunar. Og stjórnendurnir vildu kaupa Borgun sjálfir.”

Vísir.is birti í dag upptöku af fundinum, þar sem mótmælendur hrópa á Steinþór. Hann er spurður ýmissa spurninga, en illa heyrist í tilsvörum hans út myndbandið, þar eð orðum hans er drekkt í framíköllum þar sem hann er sagður ljúga og kallaður vanhæfur.