Mjólkursamsölunni (MS) var á fyrsta degi mánaðarins gert með dómi að greiða fyrrverandi starfsmanni fyrirtækisins tæplega 595 þúsund krónur, auk dráttarvaxta frá september í fyrra, vegna vangoldinna launa í kjölfar uppsagnar. Aðalkröfu mannsins, sem hljóðaði upp á tæplega 3,6 milljónir króna, var hafnað.

Umræddur starfsmaður hafði starfað hjá MS frá árinu 2006, síðast á Selfossi, var í stjórnunarstöðu og hafði töluverð mannaforráð. Í byrjun nóvember 2018 var hann boðaður á fund með yfirmönnum sínum en aðilar voru ekki sammála um hvað hafi farið fram á téðum fundi. Í málinu lá fyrir óundirritað uppsagnarbréf þar sem manninum var sagt upp störfum frá lokum nóvember og starfskrafta hans ekki óskað. Laun út uppsagnarfrest yrðu greidd sem og orlof og áunnið aukafrí.

Í málinu lá fyrir að starfsmenn MS höfðu borið umræddan starfsmann ásökunum um kynferðislega áreitni. Starfsmaðurinn taldi þær rangar með öllu en í málinu lá fyrir vottorð læknis um heilsufar mannsins í kjölfar þeirra. Í því sagði meðal annars að stjórnandinn hafi tjáð lækninum að ástæða starfslokanna hefðu verið rangar sakir af hálfu undirmanns hans. Uppsögnin hafi orðið til þess að líðan hans hafi versnað til muna.

Í aðilaskýrslu mannsins fyrir dómi kom fram að hann hefði farið í veikindaleyfi frá störfum í október 2018 vegna álags í starfi. Hann hafi um langt skeið hafið störf snemma að morgni og unnið langt fram á kvöld. Hann hafi brennt kertið í báða enda og verið orðinn mjög veikur sökum þess. Ágreiningur á vinnustað hefði síðan aðeins gert illt verra.

Trúnaðarbrestur en ekki ásakanir

Hryggjarstykkið í málatilbúnaði mannsins var að honum hefði í raun ekki verið sagt upp störfum á fyrrgreindum fundi í nóvember 2018. Hann kannaðist ekkert við uppsagnarbréf frá þeim degi og að þar hefðu aðeins verið bornar á hann upplognar ávirðingar. Honum hefði fyrst orðið ljóst að hann hefði misst vinnuna þegar honum barst uppsagnarbréf í mars 2019. Sökum þess ætti hann inni laun í fjögurra mánaða uppsagnarfresti frá þeim degi og var aðalkrafa hans þess efnis.

Vitnisburður yfirmanna hans hjá MS var hins vegar á annan veg. Þar kom fram að í kjölfar ásakanna hefði starfsmaðurinn verið beðinn um að taka sér leyfi meðan mál hans yrðu skoðuð. Við þá skoðun, sem tók um fimm daga, hafi komið í ljós að starfsmaðurinn hafi átt við tímaskráningar. Hann hafi meðal annars breytt inn- og útstimplunum hjá nokkrum starfsmönnum langt aftur í tímann. Þá hafi hann einnig skráð sig í vinnu daga þar sem hann hafi verið í veikindaleyfi. Enn fremur hafi hann breytt sínum eigin tímaskráningum, stundum á þann veg að hann hafi mætt fimm að morgni og farið heim klukkan tíu að kvöldi.

„Að mati [MS] hafi framangreind háttsemi farið svo alvarlega gegn trúnaðarskyldum stefnanda að réttlætti fyrirvaralausa uppsögn. [Félagið] fór hins vegar þá leið að greiða stefnanda laun í umsömdum uppsagnarfresti auk verulegs uppsafnaðs orlofs sem nam 128,5 dögum. Í ljósi framangreindra breytinga á tímaskráningum hafi verulegur vafi verið um það hvort stefnandi hafi með réttu átt svo mikið áunnið orlof við uppsögn og því hafi uppgjör við hann verið langt umfram skyldu að [mati MS],“ segir meðal annars í málsástæðum fyrirtæksins.

Gögn studdu uppsögn í nóvember

Í niðurstöðu dómsins segir að ýmislegt í gögnum málsins styðji að manninum hafi verið sagt upp störfum á fundi í nóvember 2018. Meðal annars hafi það verið skráð í læknisvottorð, stuttu eftir fundinn hafi hann skilað bifreið sem hann hafði haft til umráða og þá var lokað fyrir aðgang hans að starfsstöð MS um svipað leyti. Því var lagt til grundvallar að uppsögn hefði átt sér stað í nóvember 2018.

Hvað varakröfuna varðar þá byggði maðurinn á því að hann hefði verið veikur þegar uppsögnin átti sér stað. Samningsbundinn veikindaréttur hafi verið sex mánuðir og hann hafi ekki fullnýtt hann fyrr en sex mánuðum síðar eða í apríl 2019. MS taldi á móti að veikindarétturinn hefði verið fjórir mánuðir og því runnið sitt skeið á uppsagnarfresti.

Í niðurstöðu dómsins segir að þrír mismunandi kjarasamningar hafi verið í gildi hjá starfsfólki á vinnustöðinni og veikindaréttur mismunandi milli þeirra. Var það mat dómsins eftir túlkun á ákvæðum kjarasamninga að eftir tólf ára starf gæti maðurinn ekki notið lakari veikindaréttar en undirmenn sínir. Því hefði hann átt sex mánaða veikindarétt sem hefði ekki verið að fullu nýttur.

Af þeim sökum var MS dæmt til að greiða honum tæpar 600 þúsund krónur. Málskostnaður milli aðila var látinn falla niður.