Fimmtudaginn 11. október síðastliðinn féll dómur Hæstaréttar í máli Ferskra kjötvara ehf. gegn íslenska ríkinu. Málið á rætur að rekja til ársins 2011 en því lauk með fullnaðarsigri Ferskra kjötvara. Samkvæmt dómnum er íslenska ríkinu óheimilt, á grundvelli EES-samningsins, að hefta innflutning á fersku kjöti. Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu, segir stjórnvöld vísvitandi hafa tafið málið eins og þau gátu, þrátt fyrir að niðurstaðan hefði mátt vera þeim ljós.

„SVÞ ýtti þessu máli úr vör 2011. Það kemur endanlegur dómur í þessu máli fyrir viku. Fyrir það fyrsta sýnir þetta í hnotskurn hvað hagsmunabarátta á Íslandi er mikið langhlaup, á meðan stjórnvöld þumbast við á öllum stigum málsins eins og þau hafa gert í þessum málarekstri öllum. Það er með ólíkindum að þurfa að þvinga stjórnvöld fyrir dómstóla til að fá yfir sig dóm um hluti sem, út frá lögfræði, hafa alltaf legið nokkurn veginn skýrir fyrir. Stjórnvöld eru búin að nota alla möguleika til að draga málið á langinn. Alla.“

Stóra spurningin núna sé hvort stjórnvöld ætli að bregðast við í tæka tíð til að koma í veg fyrir frekari skaðabótaskyldu. „Við vitum það að innflytjendur byrjuðu bara strax eftir að dómurinn gekk að tala við sína birgja. Þeir munu byrja að flytja inn strax. Væntanlega mun tollurinn gera þetta upptækt á meðan ekki búið að breyta lögunum í samræmi við niðurstöðu dómsins. Ríkið mun með því móti kalla yfir sig bótaskyldu. Stjórnvöld sendu frá sér tilkynningu eftir að dómurinn gekk um að það sé stefnt að því að leggja fram frumvarp í febrúar. Ætla stjórnvöld að láta það gerast að það hellist yfir ríkið skaðabótakröfur vegna þess að það er ekki búið að breyta lögunum í samræmi við dóminn? Það er alveg skýrt að ríkið mun skapa sér bótaábyrgð með því að gera ófrosið kjöt upptækt.“

Andrés segir málið ekki síst áhugavert í ljósi þess hvernig tekið var á öðru stóru hagsmunamáli nýlega. „Alþingi var mjög fljótt að bregðast við þegar mikið lá við í fiskeldismálinu. Þessi málarekstur er búinn að standa í sjö ár og nú er komin skýr niðurstaða sem er ekkert hægt að velkjast í vafa um. Ríkið er í stórhættu á að fá á sig skaðabótakröfur frá fyrirtækjum sem ætla að nýta sér þessa niðurstöðu. Það verður fróðlegt að bera meðferð þingsins á þessu máli saman við afgreiðslu þess á fiskeldisfrumvarpinu, sem rann í gegnum þingið á 45 atkvæðum á níu klukkutímum. Maður horfir bara á þá hagsmuni sem þarna eru undir fyrir ríkissjóð og fyrir almenning og spyr sig; mun Alþingi bregðast eins hratt við í þessu máli?“

Andrés segir það liggja fyrir að niðurstöðunni verði ekki hnekkt, hún sé komin á endastöð í dómskerfinu. „Þessi niðurstaða er endanleg, algjörlega endanleg. Hæstiréttur staðfestir niðurstöðu héraðsdóms með vísan í rökstuðning EFTA-dómstólsins. Niðurstaða hans var sú að innleiðing á matvælalöggjöf Evrópusambandsins í íslenskan rétt hafi verið röng,“. Eina leiðin fyrir Ísland til að koma í veg fyrir innflutning ófrosins kjöts úr þessu sé því einfaldlega uppsögn á EES-samningnum en það hafi Gunnar Bragi Sveinsson, þingflokksformaður Miðflokksins, einmitt lagt til á Facebook í kjölfar dómsins. „Maður verður að taka þingmenn alvarlega þegar þeir tjá sig er það ekki? Er það stefna Miðflokksins að segja okkur úr EES?“

Varðandi hugsanlega útgöngu Íslands úr EES segir Andrés málið borðleggjandi þegar horft er á það út frá heildarhagsmunum en árið 2016 nam heildarútflutningur landbúnaðar- og sjávarafurða til aðildarríkja EES samningsins 176 milljörðum króna. „Ef menn horfa á þetta út frá þeim hagsmunum þá held ég að þeir hljóti að stöðva þar bara.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .