Samgönguráðherra Indlands, Nitin Gadkari segir þróun sjálfkeyrandi bíla muni auka atvinnuleysi meðal ungs fólks í landinu enn meir. „Við munum ekki leyfa sjálfkeyrandi bíla á Indlandi. Við þurfum ekki á þeim að halda,“ sagði samgönguráðherrann við fréttamenn fyrr í vikunni. „Hver bíll gefur bílstjóra atvinnu. Sjálfkeyrandi bílar munu taka þessi störf í burtu.“

Starfsmaður ráðuneytisins hefur staðfest þessi ummæli við CNN, þó hann sagði þetta einungis skoðun ráðherrans. Ríkisstjórnin hafi ekki enn fengið neinar tillögur á sitt borð um sjálfkeyrandi bíla. Um 5% atvinnuleysi er í Indlandi, sem jafngildir meira en 20 milljón manns, samkvæmt opinberum tölum, en það hefur hækkað síðan Narendra Modi tók við sem forsætisráðherra árið 2014.

Milljónir Indverja vinna við að keyra leigu- og vörubíla, eða sem einkabílstjórar fyrir ríkar indverskar fjölskyldur, hótel eða önnur fyrirtæki. Einnig hafa Uber og keppinautur þess, Ola, búið til störf fyrir tugir þúsunda í viðbót.

Mörg stór fyrirtæki hafa verið að fjárfesta í tækni sem gerir bílum kleyft að keyra sjálfir, fjárfesti til að mynda Ford 1 milljarði Bandaríkjadala í verkefnið fyrr á árinu. Einnig má nefna fyrirtæki eins og Google, Apple, Uber og Tesla.

Tata Group, sem er eitt af stærstu fyrirtækjum Indlands, og núverandi eigandi breska bílaframleiðandans Jaguar Land Rover, er einnig að þróa tækni sem gerir bílstjóra óþarfa í gegnum fyrirtækis sitt Tata Elxsi.