Elon Musk, stofnandi, framkvæmdastjóri, og þar til um helgina, stjórnarformaður, rafbílafyrirtækisins Tesla, hefur samið við yfirvöld í Bandaríkjunum í markaðsmisnotkunarmáli vegna umdeilds og afdrifaríks tísts .

Skilmálar samningsins eru meðal annars þeir að Musk segi af sér stjórnarformennsku og greiði 20 milljón dollara sekt, um 2,2 milljarða íslenskra króna. Niðurstaðan er líklega kærkomin fyrir marga hluthafa Tesla, þar sem málið hefur haft mikil neikvæð áhrif á hlutabréfaverð félagsins.

Verðið náði hámarki í 380 dollurum 7. ágúst, daginn sem Musk sendi frá sér tístið, en í því sagðist hann vera að íhuga að kaupa út og afskrá félagið á genginu 420 dollarar á hlut, og hafa tryggt fyrir því fjármögnun. Við lok markaða fyrir helgi stóð verðið í 265 dollurum og hafði því lækkað um rúm 30%, en það féll um 14% á föstudag eftir að Musk neitaði að semja við verðbréfaeftirlitið um málið.

Umfjöllun Financial Times .