Elon Musk, forstjóri Tesla og einn ríkasti maður heims, segist ekki njóta forstjórastarfsins, heldur „eiginlega hata það“. Ummælin lét hann falla í dómssal í gær vegna máls í tengslum við kaup rafbílaframleiðandans á sólarsellufyrirtækinu SolarCity. Wall Street Journal segir frá .

Musk hefur verið sakaður um að hafa látið Tesla vísvitandi ofgreiða fyrir SolarCity árið 2016, en hann var þá stjórnarformaður beggja félaga. Ákærendur í málinu – þáverandi hluthafar í Tesla – segja 2,1 milljarða dala kaupin hafa verið til þess gerð að bjarga sólarsellufyrirtæki hans, sem hafi rambað á barmi gjaldþrots.

Í vitnisburði Musk fyrir dómnum sagðist hann ekki telja félagið hafa verið í fjárhagsvanda. Samþætting rafhlöðu- og sólarsellutækni hafi verið lykilþáttur í vöruframboði Tesla, og hluti af sýn hans fyrir rafbílafyrirtækið frá upphafi. „Við gátum einfaldlega ekki boðið slíka vöru á meðan þetta voru tvö aðskilin fyrirtæki.“

Sem fyrr segir sagðist Musk ennfremur sinna forstjórastarfinu af illri nauðsyn. „Ég vil mun frekar eyða tíma mínum í hönnunar- og þróunarvinnu, sem er það sem ég nýt þess að gera að eðlisfari.“