Tesla hyggst auka hlutafé sitt um tvo milljarða dollara, um 250 milljarða króna. Tvær vikur eru síðan Elon Musk sagði félagið ekki þurfa á auknu hlutafé að halda. The Times greinir frá.

Nú hefur félagið ákveðið að nýta sér ótrúlega hækkun hlutabréfaverðs Tesla til að sækja sér meira fjármagn. Hlutabréfaverð Tesla hefur þrefaldast undanfarið hálft ár og yfir 90% frá áramótum. Nýta á fjármagnið til að greiða niður skuldir.

Tesla er í dag metið á um 140 milljarða dollara, og er næst verðmætasti bílaframleiðandi heims, miðað við markaðsvirði. Félagið hefur hins vegar ekki enn skilað hagnaði yfir heilt ár og varið háum fjárhæðum í að þróa bíla og byggja upp framleiðslugetu félagsins.

Í uppgjöri Tesla fyrir árið 2019 sem birt var í byrjun febrúar kom hins vegar fram að félagið hefði skilað hagnaði tvö ársfjórðunga í röð og myndi í fyrsta sinn takast að framleiða vel yfir hálfa milljón bíla á ári.

Taldi lítið vit í hlutafjáaukningu

Eftir uppgjörið lét Musk hafa eftir sér að hann teldi lítið vit í því að sækja sér meira fjármagn með því að þynna út hluti núverandi hluthafa. Í dag er eiginfjárhlutfall félagsins um 19%. Bókfært eigið fé nam 6,6 milljörðum dollara um áramótin en skuldir 26,8 milljörðum, en þar af voru vaxtaberandi skuldir 13,4 milljarðar dollara.

Félagið sótti sér síðast 2,3 milljarða dollara í maí til að fjármagna verksmiðju félagsins í Kína og þróa nýjar vörur.