Elon Musk, forstjóri rafbílaframleiðandans Tesla, kveðst vera opinn fyrir því að sameinast samkeppnisaðila á bílamarkaðnum, að því er kemur fram í frétt Reuters .

Musk greindi frá þessu á viðburði sem haldinn var á vegum útgáfufyrirtækisins Axel Springer, sem gefur m.a. út dagblöðin Bild og Die Welt. Þar var hann spurður hvort að hann myndi íhuga yfirtökutilboð í samkeppnisaðila þar sem að ríflega 500 milljarða dala markaðsvirði Tesla geri fyrirtækinu kleift að líta í kringum sig eftir álitlegum yfirtökum.

Musk tók fram að hann myndi ekki vilja ráðast í óvinveitta yfirtöku, en ef einhver samkeppnisaðili myndi koma til hans og telja það góða hugmynd að sameinast Tesla þá myndi hann veita þeirri hugmynd áheyrn.