Eftir fjögurra ára stjórn hægriflokkanna stefnir í vinstristjórn í Danmörku eftir kosningarnar í landinu í gær, þar sem flokkarnir fjórir í hægriblokkinnni svokölluðu sem stjórnað hefur landinu síðustu ár, töpuðu samanlagt 15 þingsætum. Samanlagt fengu hefðbundnir hægriflokkar 80 þingsæti en hefðbundnir vinstriflokkar 99 þingsæti.

Á vefsíðu danska ríkissjónvarpsins má sjá skemmtilega myndræna framsetningu kosninganna, en þar sést til dæmis hvernig Danski þjóðarflokkurinn var stærsti flokkurinn á flestum kjörstöðum landsins í kosningunum 2015 en einungis stærstur á einum stað eftir kosningar nú, kjördæmi leiðtoga flokksins Kristian Thulesen Dahls.

Sigurvegar dönsku kosninganna 2019
Sigurvegar dönsku kosninganna 2019
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Erfið stjórnarmyndun á vinstrivængnum vegna innflytjendamála

Lars Løkke Rasmussen, forsætisráðherra og leiðtogi Venstre, næst stærsta flokksins, baðst lausnar fyrir sig og ríkisstjórn sína, en sagði þó að erfitt yrði fyrir formann Sósíaldemókrata, Mette Frederiksen, að mynda ríkisstjórn, þrátt fyrir að hefð sé fyrir flokkabandalögum annars vegar til vinstri og hins vegar til hægri, og sagðist hann því munu bíða við símann ef hún vildi mynda samsteypustjórn að því er Euobserver segir frá.

Mette Frederiksen, leiðtogi Sósíaldemókrata þakkar sigurinn að flokkurinn hefur tekið upp ábyrgari stefnu í innflytjendamálum, en það hafa hinir vinstriflokkarnir hins vegar ekki gert að sama skapi. „Sumir kjósendur Sósíaldemókrata sem við höfum verið að tapa frá okkur á síðustu árum, því þeir studdu ekki innflytjendastefnu okkar, hafa snúið til baka núna,“ sagði Frederiksen í sigurræðu sinni.

Peter Skårup, þingflokksforseti Danska þjóðarflokksins, sem tapaði mestu í kosningunum, fór úr því að vera annar stærsti flokkurinn, enda lengst af sá eini með aðra stefnu í innflytjendamálunum en mjög frjálsan innflutning til landsins, sem var við lýði áratugum saman, sagði flokkinn hafa náð siðferðislegum sigri í málefninu sem lengi mátti ekki ræða.

„Okkur tókst að ná í gegn fjölda takmarkana í Danmörku á síðustu árum - við höfum því náð að vera með fæsta hælisleitendur frá árinu 2009. Kannski er málefnið því ekki fólki lengur svo mikilvægt,“ sagði Skårup.

Helstu kjördæmin sem skiluðu nýjum flokki, Nýja Borgaraflokknum, inn á þing í kosningunum í Danmörku 2019
Helstu kjördæmin sem skiluðu nýjum flokki, Nýja Borgaraflokknum, inn á þing í kosningunum í Danmörku 2019
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Nýr flokkur á þing meðan gamlir og nýir keppinautar náðu ekki inn

Til viðbótar við áðurnefnt tap hægriblokkarinnar náði nýr hægriflokkur, Nýi Borgaraflokkurinn sem leggur áherslu á lága skatta og að Danmörk sé kristið land, inn á þing með 4 þingsæti, og 2,4% atkvæða en hvorki kristilegir demókratar með 1,7% atkvæða né hinn nýi andíslamski Harðlínuflokkur Rasmus Paludan, sem fékk 1,8%, náðu inn á þing.

Sama átti við um nýtt framboð, sem hét eftir forgöngumanninum, Klaus Riskær Pedersen, sem fékk 0,8% atkvæða, en í heildina fengu þessi þrjú framboð, sem ekki fengu brautargengi tæplega 154 þúsund atkvæði, sem er nærri tvöfalt meira en þau um 82 til 83 þúsund atkvæði sem minnstu flokkarnir tveir sem komust inn á þing fengu hvor um sig.

Helstu niðurstöður kosninganna:

  • Sósíaldemókratar með 25,9%: +1 þingmaður = 48 þingmenn
  • Venstre með 23,4%: +9 = 43 þingmenn
  • Danski þjóðarflokkurinn með 8,7%: -21 = 16 þingmenn
  • Radikale Venstre með 8,6%: +8 = 16 þingmenn
  • Sósíalíski þjóðarflokkurinn með 7,7%: +7 þingmenn = 14 þingmenn
  • Rauðgrænir me 6,9%: -1 þingmaður = 13 þingmenn
  • Íhaldsflokkurinn með 6,6%: +6 þingmenn = 12 þingmenn
  • Valkosturinn með 3,0%: -4 þingmenn = 5 þingmenn
  • Nýi Borgaraflokkurinn með 2,4%: nýtt framboð = 4 þingmenn
  • Frjálslynda bandalagið með 2,3%: -9 þingmenn = 4 þingmenn

Ef horft er á skiptinguna eftir fylkingum hægri og vinstri:

  • Hefðbundnir vinstriflokkar = 99 þingsæti (3 af 4 þingmönnum Færeyja og Grænlands meðtaldir)
  • Hefðbundir hægriflokkar 80 þingsæti (1 þingmaður Færeyja meðtalinn)

Hvaða flokkur minnkaði mest í hverju kjördæmi kosninganna 2019 frá árinu 2015.
Hvaða flokkur minnkaði mest í hverju kjördæmi kosninganna 2019 frá árinu 2015.
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Það má því segja að kosningasigur vinstriblokkarinnar nemi 11 þingsætum, þrátt fyrir að Sósíaldemókratar hafi einungis bætt við sig einu þingsæti, en flokkur Lars Løkke Rasmussen forsætisráðherra, hægriflokkurinn Venstre bætti við sig 9 þingsætum, fór úr 19,5% og 34 þingsætum í 23,4% og 43 þingsæti í kosningunum, og Íhaldsflokkurinn bætti við sig 6 þingsætum, fóru úr 3,4% og 6 sætum í 6,6% og 12 þingsæti.

Ástæðan fyrir tapi hægriblokkarinnar er því bæði 9 sæta tap Frjálslynda bandalagsins, úr 7,5% í 2,5%, sem fór þar með niður í 4 þingsæti, en ekki síst mikið tap Danska þjóðarflokksins sem stutt hefur hægristjórn Venstre. Lengst af var síðarnefndi flokkurinn einn um að vilja taka upp ábyrgari, eða hatrammari, eftir því við hvern var rætt, stefnu í innflytjendamálum landsins sem lengi hefur tekið við miklum fjölda fólks alls staðar að úr heiminum, bæði flóttamanna og innflytjenda í gegnum fjölskyldusameiningar eða aðrar leiðir.

Tapaði flokkurinn 21 þingsæti, fór úr úr því að vera næst stærsti flokkurinn með 21,1% og 37 sæti í 8,7% og 16 sæti. Sósíaldemókratar eru eftir sem áður stærstir, og bættu þeir við sig einum þingmanni þó fylgið hafi dalað, úr 26,3% í 25,9%, og enduðu með 48 þingsæti.

Báðir boða aukin útgjöld og færri innflytjendur

Samkvæmt frétt BBC um málið má þakka það sem þeir kalla kosningasigur flokksins að formaður flokksins, og forsætisráðherraefni, Mette Frederiksen hafi að miklu leiti tekið upp ábyrgari og harðari stefnu í innflytjendamálum, en þar hafi einnig komið til loforð um aukin ríkisútgjöld, meiri skatta á fyrirtæki og hina ríku og loforð um að draga að hluta til baka umbætur í ellilífeyrismálum svo auðveldara verði að hætta að vinna fyrr.

Á sama tíma er ljóst að Danski þjóðarflokkurinn hefur fært sig til vinstri og tekið upp áherslur á aukin útgjöld til félags- og velferðarmála, annað stórmál í kosningunum, en breska ríkisútvarpið segir loftlagsmál hafa verið það þriðja.

Aðrar flokkar í vinstriblokkinni sem bættu við sig er Radikale Venstre, sem bætti við sig 8 þingsætum og fóru í 16 og úr 4,6% í 8,6%, meðan Sósíalíski þjóðarflokkurinn bætti við sig 7 þingsætum, enduðu með 14 þingmenn, en þeir fóru úr 4,2% í 7,7% fylgi.

Hins vegar tapaði Valkosturinn 4 þingsætum, fóru niður í 5 þingmenn meðan fylgið fór úr 4,8% í 3,0%, sem og Rauðgrænir töpuðu einum þingmanni, fóru úr 14 í 13, meðan fylgið fór úr 7,8% í 6,9%.

Stór hluti atkvæða í Feyreyjum og Grænlandi falla dauð

Einnig var kosið um tvö þingsæti frá hvort tveggja Færeyjum og Grænlandi. Í Færeyjum fór það svo að hinn vinstrisinnaði og sjálfstæðissinnaði Þjóðveldisflokkur missti sinn þingmann, fór úr því að vera stærstur með 24,5% niður í 18,6%, meðan hinn sjálfstæðissinnaði flokkurinn, hinn miðhægrisinnaði Fólkaflokkur, fór úr 18,7% í 23,8%, sem dugði þó ekki heldur fyrir þingsæti á danska þjóðþinginu.

Því fór það svo að sambandssinnuðu flokkarnir tveir, Sambandsflokkurinn, sem fór úr 23,5% í það að verða stærstur með 28,3% (7.349 atkvæði) og Sósíaldemókratar náðu báðum þingsætunum. Síðarnefndi flokkurinn hélt öðru sætinu, því síðara, þó fylgi þeirra lækkaði úr því að vera með 25,5% í 24,3%.

Í Grænlandi héldu stærstu flokkarnir tveir sínu hvoru sætinu, þó hinn sósíaldemókratíski og sambandssinnaði Siumut færi úr því að vera stærstur með 38,0% niður í annað sætið þó yki fylgi sitt í 29,4%, meðan hinn sjálfstæðissinnaði róttæki vinstriflokkur Inuit Ataqatigiit náði því að verða stærstur með fylgisaukningu úr 29,4% í 33,4% atkvæða (6.881 atkvæði).

Samanlagt nýttust atkvæði annarra flokka í báðum löndunum því ekki, og féllu þar með niður dauð, eða tæplega 12 þúsund atkvæði í Feyreyjum, tæplega 46% greiddra atkvæða, meðan rúmlega 7 þúsund atkvæði nýttust ekki á Grænland, eða rúm 34% greiddra atkvæða.