Hagnaður Húsasmiðjunnar dróst saman um 75% og nam 53 milljónum króna árið 2019 en 235 milljónum árið áður. Sala félagsins jókst lítillega milli ára og nam 18,7 milljörðum króna en kostnaðarverð seldra vara jókst sömuleiðis. Framlegð nam ríflega 6,1 milljarði króna.

Laun, launatengd gjöld og ýmis starfsmannakostnaður nam 3,6 milljörðum króna og hækkaði eilítið. Auk þess hækkaði annar rekstrarkostnaður og afskriftir félagsins milli ára. Ársverk voru 389. Heildareignir Húsasmiðjunnar námu 6,4 milljörðum, þar af voru 3,6 milljarðar vörubirgðir og 1,5 milljarðar viðskiptakröfur.

Eigið fé félagsins nam þremur milljörðum og eiginfjárhlutfall var 47%. Sjóðstreymi félagsins var jákvætt um 85 milljónir. Alls eru 16 Húsasmiðjuverslanir og er Blómaval starfrækt í sjö þeirra. Árni Stefánsson er framkvæmdastjóri félagsins.