Þrátt fyrir fullt afnám fjármagnshafta heldur íslenska krónan áfram að styrkjast og hefur hún á suma mælikvarða aldrei verið sterkari. Þegar síðasta Viðskiptablað fór í prentun hafði krónan á einum mánuði styrkst um 7% gagnvart Bandaríkjadal, 5% gagnvart breska pundinu og rúm 4,3% gagnvart evru, eða um 16 til 25 prósent gagnvart þessum gjaldmiðlum á einu ári. Síðustu daga hefur krónan svo haldið áfram að styrkja og er kaupgengi Bandaríkjadals nú undir 100 krónum í fyrsta skiptið frá hruni.

Nafngengi krónunnar er þó hvergi nærri jafn hátt gagnvart Bandaríkjadal, evru og pundi og þegar hæst var. Meðalgengi Bandaríkjadals hefur aldrei verið lægra á 21. öldinni en í mars 2005, þegar það fór niður fyrir 60 krónur. Nafngengi breska pundsins náði lágmarki í 107,37 krónum í nóvember 2005 og nafngengi evru var lægst í maí 2000, eða 69,3 krónur. Nafngengið segir þó ekki alla söguna, nauðsynlegt er að taka einnig til launa- og verðlagsþróunar á milli landa til að fá sem nákvæmastan samanburð. Nafngengið leiðrétt með tilliti til hlutfallslegra verðlagsbreytinga gagnvart öðrum löndum kallast raungengi og gefur heildstæðari mynd af gengisþróun.

Mun meiri verðbólga hér

Raungengisvísitala íslensku krónunnar hefur aldrei verið hærri á 21. öldinni heldur en á fjórða ársfjórðungi ársins 2005, er hún var 105,7. Raungengið tók dýfu í kjölfar hrunsins en hefur hækkað umtalsvert síðustu ár. Á fyrsta ársfjórðungi þessa árs var raungengið 98,7 og hafði hækkað um 29 prósent á tveimur árum. Munurinn á raungengi áranna 2005 og 2017 er talsvert minni en munurinn á nafngengi sama tíma og það skýrist af mun hærri verðbólgu hérlendis en í öðrum löndum. Enda hefur hlutfallsleg verðhækkun hérlendis sambærileg áhrif á raungengið og styrking nafngengis. Frá árinu 2005 hefur verðlag á Íslandi hækkað um 75,4% á meðan verðlag á evrusvæðinu hefur einungis hækkað um 20,4%, verðlag í Bandaríkjunum um 27,3% og verðlag í Bretlandi um 35,2%. Árleg verðbólga þessara landa á tímabilinu hefur verið á bilinu 1,7% til 2,9% á meðan árleg meðalverðbólga á Íslandi hefur verið 6,3% þrátt fyrir stöðugt verðlag undanfarinna ára. Þessi mikla verðbólga hér á landi umfram samanburðarlöndin gerir það að verkum að raungengi hennar gagnvart erlendum gjaldmiðlum er nærri jafn sterkt og á árum áður. Bandaríkjadalur þarf því ekki að fara niður fyrir 60 krónur á nýjan leik til að Íslendingar hafi jafn mikinn kaupmátt í Bandaríkjunum og árið 2005.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast eintak af blaðinu á pdf-formi með því að smella á hlekkinn Tölublöð.