96% alls gistirýmis í Reykjavík er uppbókað frá fimmtudegi til sunnudags í þessari viku samkvæmt athugun Túrista á bókunarvefnum Booking.com. Frá þessu er greint í frétt ferðaþjónustuvefmiðilsins.

Í höfuðborgum hinna Norðurlandanna er staðan önnur. Í Kaupmannahöfn og Helsinki er helmingur hótelherbergja laus og þrjú af hverjum fjórum eru laus í Stokkhólmi og Osló. „Hafa ber í huga að þó Booking.com sé líklega umsvifamesta hótelbókunarfyrirtæki í heimi þá gefur bókunarstaðan á vefsíðunni ekki fullkomna mynd af gistimarkaðnum í hverri borg fyrir sig,“ segir þó í grein Túrista.

Dýr og vinsæl

Reykjavík er ekki einungis eftirsótt borg - heldur er hótelverðið í borginni með því dýrara sem gerist í Evrópu. Vísað er til úttektar vefsíðunnar Trivago sem ber saman leitarniðurstöður á yfir 200 hótelbókunarsíðum. Samkvæmt úttektinni borguðu hótelgestir í Reykjavík sem dvöldu hér í janúar að jafnaði 22 þúsund fyrir hefðbundið tveggja manna herbergi. Einungis í Monte Carlo og Genf var verðlagið hærra.

Í febrúar hafði meðalverðið á reykvískum hótelum hækkað enn frekar upp í 26.523 krónur og Reykjavík fer þá upp fyrir Genf og nær öðru sæti á listanum yfir þær evrópsku borgir þar sem dýrast er að gista.