Nasdaq tilkynnir að frá og með deginum í dag mun Nasdaq Iceland - Kauphöllin - í samstarfi við Nasdaq verðbréfamiðstöð, birta opinberlega upplýsingar um heildarveðsetningu íslenska hlutabréfamarkaðarins. Upplýsingar verða birtar mánaðarlega. Nánar tiltekið er um að ræða upplýsingar um meðalveðsetningu allra félaga á hlutabréfamörkuðum Kauphallarinnar, reiknað út frá hlutfallslegu vægi hvers og eins félags. Hlutfall veðtöku í lok júní 2017 er 9,97%, samanborið við 10,92% í lok árs 2016, 10,8% í árslok 2015, og 11,25% í lok árs 2014.

Upplýsingar um veðsetningu geta veitt ákveðnar vísbendingar um umfang skuldsetningar á hlutabréfamarkaði, það er hversu mikið fjárfestar hafa fengið að láni til að kaupa í skráðum félögum. Hækkandi skuldsetning getur verið til marks um aukna bjartsýni á meðal fjárfesta og kann hófleg skuldsetning því að vera túlkuð sem jákvæður fyrirboði. Of mikil skuldsetning getur aftur á móti verið litin neikvæðum augum af margvíslegum ástæðum. Til að mynda hafa margir talið að aukin skuldsetning geti orsakað hækkun eignaverðs umfram raunvirði til skemmri tíma litið (bólumyndun á markaði). Að sama skapi getur mikil skuldsetning gert það að verkum að áhrif neikvæðra atburða á hlutabréfaverð verði harkalegri en ella að því er kemur fram í tilkynningu frá Nasdaq.

Gagnsæi á markaði

„Með birtingu upplýsinga um veðsetningu á íslenska hlutabréfamarkaðnum er stigið enn eitt skrefið í átt að auknu gagnsæi á markaði, sem er einn af hornsteinum hans.“ segir Baldur Thorlacius, forstöðumaður eftirlitssviðs Nasdaq Iceland. „Þann 1. júlí tók einnig gildi reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins um skortsölu,  sem felur í sér að nokkuð ítarlegar upplýsingar verða birtar opinberlega um skortstöður niður á einstaka hlutabréf. Með birtingu upplýsinga annars vegar um veðsetningu hlutabréfamarkaðarins og hins vegar um skortstöður er veitt betri innsýn inn í þau öfl sem geta mögulega haft áhrif á framboð og eftirspurn eftir hlutabréfum. Það geta vonandi flestir verið sammála að um sé að ræða gagnlega viðbót við þá flóru upplýsinga sem fjárfestar höfðu áður aðgang að.“