Í dag mánudag munu sendifulltrúar Nato ríkjanna halda neyðarfund í höfuðstöðvum hernaðarbandalagsins í Brussel til að ræða stöðuna í Mið Austurlöndum eftir að Bandaríkjamenn tóku út næst æðsta mann íslamska lýðveldisins í Íran í Bagdad, höfuðborg nágrannaríkisins Írak í síðustu viku og hótanir Íranskra stjórnvalda þeirra vegna.

Jens Stoltenberg aðalritari Nato skipulagði fundinn, í samráði við aðildarríkin að því er Reuters segir frá, með skömmum fyrirvara eftir að hernaðarbandalagið ákvað að gera hlé á þjálfunarverkefni sitt í Írak af öryggisástæðum. Íran hefur í kjölfarið hótað Bandaríkjunum öllu illu, en Qassam Soleimani var hershöfðingi í íranska byltingarverðinum, sérstaks hernaðararms með það hlutverk að verja stjórnkerfið sem komið var á í íslömsku byltingunni í landinu frá 1979.

Eins og Viðskiptablaðið sagði frá fyrir helgi hækkaði olíuverð í heiminum við dauða hershöfðingjans, eða um 3 dali á fatið á föstudag og hefur verðhækkunin haldið áfram í dag eða um 1,08 dali, eða 1,71%, það sem af er viðskiptadegi.

Trump tístaði skýrum og nákvæmum hótunum fyrirfram

Donald Trump forseti Bandaríkjanna hefur á móti sett fram mjög ákveðna hótun um að sprengja 52 skotmörk í Íran ef írönsk stjórnvöld láta verða af hótunum sínum um árásir á Bandaríkjamenn. Segir Trump í tísti skotmörkin vera valin út frá hernaðarlegu, efnahagslegu og menningarlegu mikilvægi en fjöldinn vísar í þá 52 gísla sem teknir voru í bandaríska sendiráðinu í Írak í íslömsku byltingunni.

Svipaðar hótanir um eld og brennistein dugðu til þess að Norður Kórea bakkaði frá því að skjóta flaug að Guam líkt og þeir höfðu hótað árið 2017 líkt og Viðskiptablaði fjallaði þá um . Innan íranska byltingarvarðarins var Suleimani leiðtogi Quds hersveitanna sem hafa það hlutverk að sinna hryðjuverkum og öðrum óhefðbundnum hernaði auk leyniþjónustustarfsemi.

Þær hafa verið bakhjarl Herzbollah hryðjuverkahersveitanna í Líbanon, Hamas og íslamska Jihad hryðjuverkasveitanna á heimastjórnarsvæðum Palestínu, Houthis hersveitanna sem barist hafa við stjórnvöld í Yemen og hersveita shia múslima í Írak, Sýrlandi og Afganistan.

Er hann jafnan talin hafa verið næst æðsti maður ríkisins, á eftir Ali Khameinei erkiklerki, og þar með æðri forseta landsins og ríkisstjórnar sem kosinn er af þingi sem einungis þeir sem fá samþykki klerkaráðsins geta boðið sig fram í.

Íranar seilst til áhrifa í Írak í tómarúminu við brottför Bandaríkjanna

Soleimani er talinn bera ábyrgð á hryðjuverkum og hemdarverkarárásum víða um heim, en þegar hann var tekinn út með loftárás úr dróna Bandaríkjahers á Bagdad flugvelli var hann einmitt að hitta Abu Mahdi al-Muhandis, næst æðsta leiðtoga lýðfylkingarhersveita Írak, sem eru regnhlífarsamtök shía hersveita í landinu.

Þær hafa notið stuðnings stjórnvalda í Írak og þær stutt stjórnarherinn í baráttunni við Íslamska ríkið sem tóku völdin í sunní héruðum norðurhuta Íraks á tímabili. Suleimani er sagður í grein í The Atlantic þar sem áhrif hans eru tíunduð hafa verið virkur í aðgerðum stjórnvalda þar í landi til að berja niður mótmæli gegn spillingu og óráðsíu stjórnmálamanna í landinu.

Sulemimani hefur verið á refsiaðgerðalista Bandaríkjanna síðustu ár sem hryðjuverkamaður og fyrir að hafa hjálpað stjórnvöldum í Sýrlandi við að berja niður mótmæli og loks uppreisn lýðræðissinna og annarra hópa í landinu.

Marketwatch fjallar um Suleimani og vísar í ummæli bandaríska utanríkisráðherrans Mike Pompeo frá apríl 2018 um að hann hefði borið ábyrgð á dauða hundruð bandarískra hermanna og annarra ríkisborgara. Honum er jafnframt lýst sem hálfgerðum landstjóra Írans í Írak þar sem stjórnvöld íslamska lýðveldisins hafa í auknum mæli seilst til áhrifa í tómarúminu sem myndast hefur við að Bandaríkjamenn hafa dregið sig út.

NBC fréttasíðan fjallar jafnframt um að Suleimani hafi verið að undirbúa hernaðaraðgerðir gegn bandarískum stjórnarbyggingum og diplómötum í Írak og víðar á svæðinu, og það hafi verið ástæðan fyrir því að bandarísk stjórnvöld gripu nú til aðgerða.