Viðskiptaráð telur að í ljósi breytts umhverfis viðskipta og verslunar, meðal annars vegna tækniþróunar, aukinnar netverslunar og innkomu erlendra aðila, sé nauðsynlegt að samkeppnisyfirvöld hér á landi aðlagi nálgun sína á það hvernig markaðir eru skilgreindir. Hægt er að kynna sér umfjöllun Viðskiptaráðs um samkeppni í breyttri heimsmynd . Ráðið leggur til að ákveðnar aðgerðir sem að stjórnvöld geti gripið til að jafna samkeppnisstöðu fyrirtækja sem starfa hér á landi.

Samkeppni er samkeppni

Í fyrsta lagi leggur Viðskiptaráð Íslands til að samkeppnisyfirvöld viðurkenni netverslun, bæði innlenda og erlenda, sem hluta af sama markaði og almenn verslun þar sem á við. Einnig er tekið fram að það sama gildi um þá markaði sem mögulegt er að kaupa eða selja þjónustu yfir landamæri á netinu. Bent er á að netverslun vaxi fimm til sex sinnum hraðar en smásöluverslun og gert er ráð fyrir því að hlutfall netverslunar muni nema 15 til 20 prósent af allri verslun eftir þrjú árs.

Í skoðun Viðskiptaráðs segir: „Í grunninn er þetta einfalt, samkeppni er samkeppni. Það skiptir ekki máli með hvaða hætti vara er keypt. Ef Íslendingur kaupir sér buxur hjá erlendri vefverslun og fær þær afhentar hér á landi innan fárra daga, þá er sú vefverslun í beinni samkeppni við íslenskar fataverslanir“.

Samkeppnisyfirvöld horfi á efnahagslegan styrk alþjóðlegra fyrirtækja

Í öðru lagi, þá er það skoðun Viðskiptaráðs Íslands, að nauðsynlegt sé að samkeppnisyfirvöld horfi í auknum mæli til efnahagslegs styrks alþjóðlegra fyrirtækja sem starfa hér á landi við mat á markaðsráðandi stöðu. Það er varla sá Íslendingur til sem ekki hefur tekið eftir innreið erlendra risa á íslenskan markað, í því samhengi er hægt að nefna Costco og H&M. Viðskiptaráð bendir á að hingað til hafi mat á styrk á markaði farið þannig fram að samkeppnisyfirvöld og dómstólar hafi litið svo á að meta eigi efnahagslega styrkleika fyrirtækja eins og hann birtist á hinum íslenska markaði.

„Þessi framkvæmd hefur ákveðna vankanta þar sem að með henni er litið fram hjá þáttum sem kunna að hafa áhrif. Stór og alþjóðleg fyrirtæki sem starfa á mörgum og breiðum mörkuðum njóta til að mynda mun meiri stærðarhagkvæmni en íslensk fyrirtæki,“ er tekið fram í skoðun Viðskiptaráðs.

Þannig kemur það til að stærðarhagkvæmni stórra alþjóðlegra fyrirtækja skekki samkeppnisstöðu á íslenska markaðnum, en stærðarhagkvæmnin skilar fyrirtækjunum betri fjármögnunarkjörum og betri samningsstöðu gagnvart framleiðendum.

Vilja að komuverslun Fríhafnarinnar verði aflögð

Í þriðja lagi leggur Viðskiptaráð til að fríhafnarsvæði hér á Íslandi verði skilgreint sem hluti af viðkomandi markaði og/eða að komuverslun í Flugstöð Leifs Eiríkssonar verði aflögð.

Bent er á að Fríhöfnin sé í beinni samkeppni við innlenda aðila, til að mynda hafi 50% verslan snyrtivörur í Fríhöfninni, sem er áhugavert í ljósi þess að Samkeppniseftirlitið hafnaði samruna Haga og Lyfju með þeim rökum að samruninn myndi beinlínis skaða samkeppni á snyrtivörumarkaði.