Nýskráðum hjólhýsum hefur fjölgað um 23,3% á fyrstu fimm mánuðum ársins í samanburði við fyrstu fimm mánuði ársins í fyrra, sem var metár í nýskráningu hjólhýsa. Íslendingar virðast því ætla að halda áfram að ferðast innanlands í sumar samkvæmt tölum Samgöngustofu .

Arnar Barðdal, eigandi og framkvæmdastjóri Víkurverks, segir að sala á nýjum og notuðum vögnum hafi gengið vonum framar og að erfitt sé að anna eftirspurn. „Það selst allt rosa vel og við náum ekki að sinna eftirspurn. Það er allt löngu uppselt hjá öllum framleiðendum en við eigum eftir að fá eitthvað inn í júní og júlí, sem á eftir að seljast. Við fengum samt ekki eins mikið og við vildum og það myndi seljast meira í júní og júlí ef það væri til."

Sjá einnig: Nærri 50% veltuaukning í faraldrinum

Hann segir að markhópur Víkurverks sé stór en að hann sé að breytast. Markhópurinn hefur yfirleitt verið fólk á aldrinum 45 ára upp í 75 ára. Nú er fólk á aldrinum 35 ára upp í 50 ára orðinn töluvert stærri markhópur en áður var. „Það er mikið af ungum fjölskyldum sem eru að prófa þetta og festast."

Sjá einnig: Innanlandsferðasumarið mikla

Hann spáir því að næsta ár verði líka gott og segir að pantanir fyrir næsta ár hafi nú þegar hafist. Þá býst hann við því að Víkurverk muni auka fjölda vagna fyrir næsta ár. „Það er svo mikið af nýju fólki sem er að prófa þetta og margir að fatta hvað þeir eiga fallegt land. Það hefur verið mikið af nýju og ungu fólki að ferðast um landið með hjólhýsi og ferðavagna, sérstaklega undanfarin tvö ár."