Netflix hefur innleitt þá nýjung að notendur geta nú horft á efni á streymisveitunni á hálfum hraða og upp í 1,5 faldan eðlilegan hraða. Til að byrja með verður eiginleikinn einungis fyrir notendur með Android síma eða spjaldtölvur en bæta á uppfærslunni við á heimsvísu á næstu vikum.

Innan Hollywood er lítil gleði með uppátæki Netflix. Fyrirtækið prófaði eiginleikann á síðasta ári en fékk hörð viðbrögð frá kvikmyndagerðafólki. Framleiðandinn Judd Apatow sagði streymisveitur ættu ekki að geta stýrt því hvernig efni framleiðenda birtist.

Stjórnendur Netflix segjast einungis vera að fara að óskum notenda sem kallað hafi eftir breytingunum að því er The Verge greinir frá. Velja þarf eiginleikann fyrirfram svo notendur fari ekki að spila efni á hálfum hraða eða þá meiri hraða en efnið var framleitt á.