Pósturinn hefur sett af stað Netlúguna, nýja þjónustu við netverslanir, þar sem netverslanir í viðskiptum við Póstinn geta skráð og gengið frá sendingum til viðskiptavina í gegnum stafrænar lausnir Póstsins. Þannig geta þær komið með sendingar hvenær sem er sólarhringsins í Netlúguna þeim að kostnaðarlausu.

Hugmynd frá eigendum netverslana

Netlúga Íslandspósts
Netlúga Íslandspósts
© Aðsend mynd (AÐSEND)
Þjónustan varð til eftir að Pósturinn óskaði eftir hugmyndum frá íslenskum netverslunum á Facebook. Fjöldi aðila sendi inn hugmyndir og meðal annars um lúgu þar sem að netverslanir gætu skilað sendingum hvenær sem er sólahrings og með því aukið hraðan á sendingum til sinna viðskiptavina.

Pósturinn hefur komið fyrir tveimur Netlúgum, fyrir framan pósthúsið í Síðumúla og hjá pósthúsinu við Dalveg. Með því að nýta sér Netlúguna geta netverslanir afgreitt sendingar frá sér þegar þeim hentar, aðeins þarf að skrá sendinguna og setja í lúguna. Pósturinn sér svo um að koma vörunum til skila um allt land.

Elvar Bjarki Helgason, forstöðumaður söludeildar Íslandspósts segir markmið félagsins að auðvelda neytendum kaup á netinu með nýjum afhendingarlausnum.

„Með Netlúgunni geta netverslanir komið hvenær sem er sólarhringsins með sendingar sem búið er að skrá inn í Póststoð og skilað í Netlúguna. Það eru næg sóknartækifæri hjá íslenskum netverslunum en þá er líka mikilvægt að dreifikerfið sé gott og í boði séu fjölbreyttar afhendingarlausnir,“ segir Elvar Bjarki.

Ósk Heiða Sveinsdóttir, forstöðumaður markaðsdeildar Íslandspósts segir félagið leggja mikla áherslu á að bæta þjónustu við  viðskiptavini og huga að nýjum lausnum og þjónustuframboði.

„Grundvöllur þess að sá árangur náist er skilningur og þekking á væntingum og þörfum viðskiptavinarins. Við leggjum okkur fram um virkt samtal við okkar viðskiptavini og hlusta á það sem þeir benda okkur á að betur megi fara. Við spurðum því íslenskar netverslanir, fengu mikið af ábendingum og meðal annars þessa hér, Netlúguna sem við kynnum í dag. Hlökkum til að taka þátt á áframhaldandi farsælli vegferð netverslana á Íslandi,“ segir Ósk Heiða.