Flutningur gagnamagns um ljósleiðara Gagnaveitu Reykjavíkur hafur aukist um 40% síðustu vikur enda þjóðin að stórum hluta farin að vinna heima. Mest er aukningin á vinnutíma þegar umferðin hefur allt að því tvöfaldast.

„Síðustu 30 daga hefur netumferð um kerfi Gagnaveitu Reykjavíkur aukist verulega, sem við tengjum beint við tvær dagsetningar, 28. febrúar þegar lýst var yfir hættustigi almannavarna og 6. mars þegar neyðarstigi var lýst yfir,“ segir Erling Freyr Guðmundsson framkvæmdastjóri Gagnaveitu Reykjavíkur. Í vikunni var greint frá því að gagnaveitur á borð við Netflix myndu hætta að senda út í háskerpu í Evrópu til að draga úr álaginu á fjarskiptakerfi álfunnar.

Sjá einnig: Internetið að klárast

„Fjöldi fólks vinnur nú að heiman og notkun fjarfundabúnaðar hefur stóraukist. Margir eru einangraðir í sóttkví eða eru jafnvel veikir, og þá sækir fólk í auknum mæli eftir afþreyingu á netinu. Allt þetta hefur stór áhrif á flutning gagnamagns,“ segir Erling.

„Við sjáum aukningu netumferðar og nær hún hámarki þegar daglegir upplýsingafundir almannavarna eru haldnir kl 14:00. Kvöldin er ennþá sá tími þar sem flestir eru að flytja efni, sem tengja má við áhorf á sjónvarp og spilun tölvuleikja.“