Því hefur verið fleygt fram í umræðunni að Hagar hafi orðið á eftir í samkeppni við aðrar matvöruverslanir. Finnur Oddsson, forstjóri félagsins, sem er í ítarlegu viðtali í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins, kveðst ekki geta tekið undir það.

„Hlutdeild okkar á dagvörumarkaðnum staðfestir að svo er ekki. Við búum að verulegum styrkleikum í því að vera stærsta félagið á þeim markaði í dag, við höfum á að skipa sérlega reynslumiklu starfsfólki og í rekstrarlegu sjálfstæði dótturfélaga." Um leið verði að horfast í augu við að styrkleikar geti snúist upp í andhverfu sína. „Það sem mögulega er verið að vísa til er að það getur verið ákveðin hætta á að stór fyrirtæki verði værukær, eða að reynslumikið fólk fari sér hægt í breytingum eða að sjálfstæði eininga trufli það sem heildin getur skapað. Það hlýtur þá að vera hlutverk okkar sem veitum Högum forystu á hverjum tíma að sjá til þess að við spilum rétt úr þessum styrkleikum. Að við nýtum stærðina, reynsluna og þessar öflugu einingar til þess að þjóna viðskiptavinum sem best."

Finnur segir að í gegnum árin hafi þetta gengið vel, en Hagar geti þó bætt sig á ýmsum sviðum. „Það er mín skoðun að fyrirtæki eins og Hagar eigi að vera óhrætt við að fara nýjar leiðir og prófa sig áfram með því að rækta nýsköpun innan sinna vébanda. Þetta er sérstaklega mikilvægt á tímum þar sem rekstrarumhverfi tekur miklum breytingum, eins og verið hefur í verslun og eldsneytissölu að undanförnu og verður áfram á næstu áratugum. Þetta á m.a. við á sviði upplýsingatækni, þar sem við eigum ónýtt tækifæri, sem á reyndar við í nánast öllum atvinnurekstri í dag. Við munum tefla djarfar á því sviði á næstu árum, enda eigum við að vera leiðandi á öllum sviðum verslunar, líka hvað varðar stafrænar lausnir. Við erum með ýmsar nýjungar til skoðunar sem miða að því að skilja þarfir neytenda betur og klæðskerasniðna þjónustu, auka ánægju og þægindi í verslunarleiðangri innan búða, auðvelda samanburð á milli aðila á markaði og styrkja þannig sérstöðu okkar verslana."

Útfrærsla netverslana á teikniborðinu

Fyrrnefnd umræða um að Hagar hafi orðið á eftir í samkeppni við aðrar matvöruverslanir kann að einhverju leyti að eiga rætur sínar að rekja til þess að fyrirtækið hefur ekki enn gert sig gildandi í rekstri netverslana. Sem dæmi er Bónus ekki með netverslun en samkeppnisaðilar á borð við Krónuna og Nettó bjóða upp á þann möguleika. Finnur segir að Hagar muni leggja aukna áherslu á netverslun en útfærslan sé hins vegar enn í vinnslu.

„Við viljum tryggja það að útfærslan sé sjálfbær til lengri tíma út frá tveimur forsendum. Annars vegar út frá þjónustunni sem við veitum viðskiptavinum og hins vegar þarf hún að vera sjálfbær með tilliti til rekstrargrundvallar. Enn sem komið er hefur okkur ekki, og í raun engum, tekist að uppfylla bæði þessi skilyrði svo vel sé. Það styttist hins vegar í að svo verði. Við gerum okkur grein fyrir því að netsala með matvöru er komin til að vera og orðin hluti af væntingum viðskiptavina okkar um þjónustu sem talin er sjálfsögð. Við höfum viðað að okkur dýrmætri reynslu á þessu sviði með rekstri netverslana Hagkaups í gegnum árin, Útilífs og núna síðast Zöru, en stefnum að því að kynna okkar útfærslu á umfangsmeiri netverslun með dagvöru sem fyrst. Þarna viljum við, eins og á öðrum sviðum verslunar, vera leiðandi.“

Nánar er rætt við Finn í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .