Neysla Bandaríkjamanna jókst fjórða mánuðinn í röð í júlí og var töluverð eftirspurn eftir bílum í landinu.

Þetta þykir til marks um að efnahagurinn í landinu sé að ná sér á strik, sem jafnframt hefur leitt til þess að auknar líkur eru á að seðlabanki Bandaríkjanna muni hækka stýrivexti á árinu.

Neysluaukning í samræmi við væntingar

Samkvæmt opinberum tölum þá jókst neysla um 0,3% á síðasta ári, í kjölfar þess að hafa aukist um 0,5% í júnímánuði. Neyslan heldur uppi um tveim þriðju hlutu efnahagslífsins í Bandaríkjunum.

Aukningin í júlí var samkvæmt væntingum hagfræðinga, en á öðrum ársfjórðungi jókst neyslan um 4,4% á ársgrundvelli, sem er mesta aukning á nærri tveimur árum. Stökkið hjálpaði til við að vega upp á móti minnkandi birgðum og langtímalægð í fjárfestingum fyrirtækja.

Söluaukning á bílum

Hagkerfið jókst þó einungis um 1,1% á ársgrundvelli á öðrum ársfjórðungi. Söluaukning á iðnframleiðslu, eins og bílum nam 1,6%, meðan neysla á þjónustu jókst um 0,4%.

Framvirkir samningar um hlutabréfaverð í Bandaríkjunum hækkuðu í verði í kjölfar birtingar talnanna. Tölurnar bætast við aðrar tölur um viðskiptahalla, iðnaðarframleiðslu, pantanir og húsbyggingar sem benda til aukins hagvaxtar á þriðja ársfjórðungi. Býst seðlabankinn við að verg landsframleiðsla vaxi um 3,4% á ársgrundvelli á þriðja ársfjórðungi.

Aukning neyslunnar er knúin áfram af aukinni atvinnu, en bættar atvinnutölur sýna að laun séu að hækka nokkuð. Einnig ýtir hækkandi húsnæðisverð og hlutabréfaverð undir aukna neyslu.