Tryggingatæknifélagið Verna býður upp á ökutækjatryggingar á allt að 40% lægra verði en önnur félög á íslenskum tryggingamarkaði bjóða upp á. Friðrik Þór Snorrason, forstjóri Verna, segir hugmyndina að félaginu hafa vaknað fyrir þremur árum þegar hann var að hætta í öðru starfi. „Ég tók eftir því að lítið var að gerast í tækniþróun á íslenskum tryggingamarkaði. Í kjölfarið byrjuðum við að þróa grunnkerfi til að geta haldið utan um tryggingar og hjálpað okkur að koma með nýjungar inn á markaðinn."

Ákvörðun hafi í framhaldinu verið tekin um að tækla ökutækjatryggingarnar því þær væru stærsti hluti markaðarins. Þar horfi fólk fram á mestu hækkanirnar á milli ára og mikil þörf og tækifæri séu til viðskiptaþróunar og breytinga. „Við töldum okkur geta komið með ávinninginn fyrir neytendur en tveir þriðju af útgjöldum heimilanna vegna trygginga eru yfirleitt ökutækjatryggingar." Verna er tryggingatæknifélag sem framleiðir tryggingaafurðir og gerir síðan samning við tryggingafélag til að koma þeim á markað. „TM leyfir okkur að nota sitt leyfi en við höfum komið á ákveðinni hlutverkaskiptingu. Við sjáum um sölu, markaðssetningu, verðlagningu og úrvinnslu munatjóna en TM sér um slysatjónin og eru ábyrgir fyrir fjárfestingum og ávöxtun tjónasjóðsins."

Verna eru í rauninni tvö félög. Tæknifélagið Verna er móðurfélagið sem framleiðir tæknilausnir og annað þess háttar. Dótturfélag þess er í 15% eigu TM en það sér um um að selja, dreifa, og áhættumeta viðskiptavini og er samkvæmt tryggingalögum svokallaður umboðsmaður. „Við erum að fylgja módeli sem er mjög þekkt erlendis. Okkur er umbunað á forsendum þess árangurs sem við náum í að lækka tjónakostnað sem hjálpar okkur svo að lækka tryggingakostnað neytenda."

40% lægri en markaðsverð

Verna notar sérstaka nema, sem eru í öllum snjallsímum, til viðbótar við GPS hnit og slíkt til þess að búa til áhættuskor fyrir neytandann. Áhættuskorið metur hversu mikla áhættu neytandinn tekur við stýrið. „Keyrir bílstjórinn að jafnaði hraðar eða hægar en aðrir í umferðinni, bremsar hann mikið eða skiptir hann oft um akreinar. Þá er einbeitingin bílstjórans einnig metin, það er hvort hún sé á akstrinum eða annars staðar - er bílstjórinn að svara tölvupóstum eða lesa sms skilaboð undir stýri."

Nemarnir í snjallsímunum nema hraða, hvort skipt sé ört um akreinar, nándarneminn nemur þegar síminn er lagður upp að andlitinu og síðan er einnig nemi sem nemur þegar haldið er um símann og stimplað á hann. „Það er þessi tækni sem við notum til að búa til ökuskor - frá einum upp í hundrað. Sé skorið hátt þá eru iðgjöldin í komandi mánuði lág, en þau geta verið allt að 40% lægri en hefðbundið markaðsverð, og sé ökuskorið lágt þá hækka iðgjöldin í komandi mánuði."

Virðisaukandi þjónusta

Verna leggur mikið upp úr persónuvernd og eru engin persónugreinanleg gögn geymd hjá þeim. Gæta þurfi að jafnvæginu á milli þess hvenær viðskiptavinurinn er að deila gögnum sem skapi ávinning fyrir hann en ekki hættu. „Við vitum aldrei hvar fólk er að keyra eða hvort það sé að brjóta umferðarreglur. Slíkar upplýsingar eru bara geymdar á símunum í persónugreinanlegu formi og aldrei í kerfum Verna. Þegar slys hefur átt sér stað verður heldur aldrei hægt að meta hver beri sök út frá þessum gögnum því við geymum þau ekki."

Í smáforritinu er hægt að tilkynna um tjón, leita eftir þjónustu vegna tjóns og kalla eftir aðstoð við öryggi. Þá er stefnt að því að bjóða einnig upp á ýmsa virðisaukandi þjónustu í smáforritinu. „Í maí bætist þjónusta við smáforritið sem aðstoðar fólk við að nota bílinn alveg frá grunni. Til að mynda verða veittar upplýsingar um hvar ódýrasta bensínið sé miðað við hvar fólk er staðsett og upplýsingar verða um tilboð tengd notkun bílsins."

Verna býður viðskiptavinum sínum upp á svokallað vinakerfi til þess að lækka tryggingakostnaðinn sinn. Þegar viðskiptavinur bendir vini eða vandamanni á að fara með sín viðskipti til Verna og viðkomandi fylgir hans ráðum, þá fá báðir aðilar 1.800 króna afslátt af tryggingunni sinni. „Kerfið virkar þannig að sé viðskiptavinur duglegur að bjóða fólki í viðskipti þá getur hann verið með mjög ódýrar og jafnvel ókeypis tryggingar hjá okkur."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .